Pakistanskar hersveitir drápu í morgun 15 vígamenn í nokkrum í loftárásum nærri landamærum Afganistans, en aðgerðunum er beint gegn sveitum talibana og vígamönnum al-Qaeda þar í landi.
Fréttaveita AFP greinir frá því að loftárásirnar hafi verið gerðar í Alwara, Khar Tangi og Maizer. En árásir pakistanska hersins á sveitir talibana hófust fyrst í júní 2014 eftir árásir vígamanna á flugvöllinn í Karachi. Sú árás varð til þess að friðarviðræður milli stríðandi fylkinga sigldu í strand.
„Fimmtán hryðjuverkamenn féllu og átta felustaðir þeirra voru eyðilagðir í loftárásum dagsins,“ segir í tilkynningu sem hermálayfirvöld í Pakistan sendu frá sér og AFP hefur undir höndum.
Þá gerðu bandarískar hersveitir í gær einnig drónaárásir á búðir vígamanna innan landamæra Pakistans og særðu þar minnst einn.