Evrópusambandið leggur áherslu á að ljúka yfirstandandi fríverslunarviðræðum sínum við Bandaríkjamenn áður en Barack Obama lætur af embætti sem forseti Bandaríkjanna. Þetta kemur fram á fréttavefnum Euobserver.com. Obama lætur af embætti í janúar á næsta ári en forsetakosningar fara fram í haust.
Fríverslunarviðræðurnar hófust formlega sumarið 2013 og stóð upphaflega til að ljúka þeim fyrir árslok 2014 en því var síðan frestað til loka síðasta árs. Óvíst er hvenær viðræðunum lýkur ef þær á annað borð leiða til endanlegs samnings en bandarískir embættismenn lýstu því yfir nýverið að óvíst væri hvort hægt yrði að ljúka þeim áður en Obama hættir sem forseti.