Harðar deilur eru innan stjórnarflokkanna í Danmörku og alls óvíst hvert framhaldið verður. Er tekist á um störf Eva Kjer Hansen, landbúnaðar- og umhverfisráðherra (Venstre), en Íhaldsflokkurinn styður hana ekki lengur í starfi.
Blaðamaður Berlingske sem fjallar um stjórnmálin í Danmörku í dag hefur grein sína á þessum orðum: Det eneste, vi ved, er, at vi ikke ved noget. Eða: Það eina sem við vitum er að við vitum ekki neitt.
Þar, sem og í öllum dönskum fjölmiðlum í gærkvöldi og í morgun er rætt um stöðuna sem er komin upp - er ríkisstjórnin að springa?
Í gærkvöld boðaði Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra (Venstre) formenn stjórnarflokkanna (bláu blokkarinnar) á sinn fund í forsætisráðuneytinu til þess að ræða stöðuna sem er komin upp. Eftir þriggja tíma fund var engin svör að fá og forðaði Rasmussen sér út um bakdyr að loknum fundi svo hann þyrfti ekki að ræða við fréttamenn sem biðu með öndina í hálsinum eftir upplýsingum af fundinum.
Það sem danskir fjölmiðlar vita er að formaður Íhaldsflokksins, Søren Pape Poulsen, sagði það hreint út í gær að flokkur hans styddi ekki lengur Eva Kjer Hansen í starfi. Á blaðamannafundi klukkan 20 í gærkvöldi sagði hann að landbúnaðarpakki sem hún hafi kynnt sé ekki réttlátur (td áburðargjöf og önnur mál tengd landbúnaði) og að flokkurinn geti ekki lengur stutt hana og hennar störf. Hún hafi ekki, þrátt fyrir ítrekaðar spurningar, svarað spurningum Íhaldsflokksins.