Varað er við því í minnisblaði innan utanríkisráðuneytisins norska að búast megi við nýrri holskeflu flóttamanna á landamærastöðina í Storskov fljótlega. Í minnisblaðinu er einnig varað við hættu á hryðjuverkaárásum í Evrópu.
Um er að ræða innanhúss minnisblað í ráðuneytinu en norski fjölmiðillinn VG fjallar um það í dag. Lítil hefur borið á komu flóttafólks þangað frá Rússlandi að undanförnu en í byrjun árs tilkynntu norsk stjórnvöld að öllum hælisleitendum sem hafa verið skráðir sem hælisleitendur í Rússlandi yrði vísað samstundis frá. En samkvæmt minnisblaðinu er þetta aðeins lognið á undan storminum.
Í minnisblaðinu er talað um pólitískt moldviðri um alla Evrópu innan hálfs árs sem muni einnig hafa áhrif á landamæri Noregs og Rússlands. Með því að loka leiðinni fyrir flóttafólkið um Balkanskagann eykst þrýstingur á Storskog, Finnland og Eystrasaltsríkin á næstu mánuðum.
Þar er varað við því að Noregur sé ekki nægjanlega undir það búinn að taka á móti slíkum straumi flóttafólks. Þar megi nefna kostnað sem fylgir fjölgun hælisleitenda, svo sem auknu atvinnuleysi og auknum kostnaði í velferðarkerfinu árið 2017.