Ekkert bendir til þess að Anton Lundin Petterson hafi haft vitorðsmann eða fyrirmynd sem hvatti hann til árasanna í grunnskóla í Trollhättan í Svíþjóð í október á síðasta ári. Rannsókn lögreglu á málinu er lokið og er von á skýrslu um málið innan tíðar.
Petterson stakk þrjá til bana með sveðju, bæði nemendur og kennara áður en lögregla skaut hann til bana. Tveir lögreglumenn hleyptu af á sama tíma og hittu hann í magann. Sögðust þeir hafa þurft að handtaka hann þar sem hann streittist á móti þegar þeir reyndu að stöðva blæðinguna.
Þeir drógu af honum grímuna og spurðu hann að nafni. Hann svaraði samstundis.
„Hann var nýklipptur. Hann hafði rakað höfuð sitt á báðum hliðum. Hann var íklæddur nýjum stígvélum og hjálmi. Hann var að hlusta á háværa tónlist, mjög þunga rokktónlist. Hann var með augnfarða. Hann leit út eins og pönkari,“ sagði annar lögregluþjónanna.