Japan getur ekki verið án kjarnorku ef það vill viðhalda stöðugleika í orkumálum og til að verjast loftslagsbreytingum, að sögn Shinzo Abe, forsætisráðherra landsins. Dómstóll fyrirskipaði í gær að slökkt skyldi á tveimur kjarnaofnum sem áður höfðu verið lýstir öruggir.
Fimm ár verða liðin á morgun frá jarðskjálftanum sem hratt af stað flóðbylgju sem skall á kjarnorkuverinu í Fukushima. Afleiðingin varð versta kjarnorkuslys sem orðið hafði frá Tsjernóbílslysinu árið 1986.
„Auðlindasnautt land okkar getur ekki verið án kjarnorku til þess að tryggja stöðugt orkuframboð á sama tíma og haft er í huga hvað er skynsamlegast efnahagslega og málefni loftslagsbreytinga,“ sagði Abe á blaðamannafundi þar sem hann svaraði spurningum í tilefni tímamótanna.
Fullyrti hann að ríkisstjórnin myndi ekki hætta við áform um að taka kjarnaofna landsins aftur í notkun en slökkt var á þeim í kjölfar Fukushima-slyssins. Hertar öryggisreglur voru settar um kjarnorkuver í kjölfarið.
Kjarnaofnarnir tveir í Takahama-kjarnorkuverinu sem nú á að slökkva á höfðu staðist nýju reglurnar og kveikt hafði verið á þeim á nýjan leik. Dómstóllinn tók afstöðu með íbúum í nágreninu sem færðu rök fyrir því að slys í kjarnaofnunum gæti spillt drykkjarvatni.
Fyrri frétt mbl.is: Slökkva á tveimur kjarnaofnum