Carson ætlar að styðja Trump

Ben Carson segir Trump í raun hugsandi einstakling.
Ben Carson segir Trump í raun hugsandi einstakling. AFP

Búist er við því að taugaskurðlæknirinn Ben Carson sem dró sig úr baráttunni um að verða forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins í síðustu viku lýsi opinberlega yfir stuðningi við auðjöfurinn Donald Trump síðar í dag. Carson segir Trump vera hugsandi einstakling sem sé frábrugðinn opinberri persónu hans.

Heimildir Washington Post herma að Carson muni lýsa yfir stuðningi við Trump á sameiginlegum blaðamannafundi þeirra í einkaklúbbi þess síðarnefnda á Palm Beach í Flórída í dag. Carson segir að Trump yrði mun betri en Hillary Clinton sem forseti og ekki eins slæmur og margir íhaldsmenn óttast. Meira sé í hann spunnið en virðist við fyrstu sýn.

„Annars vegar er sá Donald Trump sem þú sérð í sjónvarpinu og fer fyrir framan stóra hópa fólks og hins vegar er sá Donald Trump sem er á bak við tjöldin. Þeir eru ekki sama manneskjan. Annar þeirra er mikill skemmtikraftur og hinn er í raun og veru hugsandi einstaklingur,“ sagði Carson í viðtali við útvarpsstöð Fox News.

Á meðan Carson var enn á meðal frambjóðenda í forvali repúblikana líkti Trump honum við barnaníðing og sagði hann hefði „mjög litla orku“. Þá vefengdi auðkýfingurinn trú Carson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert