„Eins og hamfarirnar séu enn í gangi“

Jarðskjálftinn og flóðbylgjan sem leiddu hörmungar yfir Japani árið 2011 móta daglegt líf þúsunda landsmanna enn þann dag í dag. Fyrir utan ástvinina sem þeir glötuðu í hamförunum geta þúsundir Japana enn ekki snúið aftur til heimila sem þeir þurftu að yfirgefa. Fimm ár eru liðin frá atburðunum í dag.

Keisarahjónin Akihito og Michiko og forsætisráðherrann Shinzo Abe voru á meðal fyrirmenna sem minntust fórnarlamba hörmunganna við opinbera athöfn í Tókýó í dag. Drupu viðstaddir höfði kl. 14:26 að staðartíma en á þeim tíma fyrir fimm árum reið jarðskjálfti af stærðinni níu yfir undir botni Kyrrahafsins.

Jarðskjálftinn hratt af stað gríðarlegri flóðbylgju sem gekk á land á norðausturströnd Japans. Vatnselgurinn eirði engu þegar hann streymdi langt inn í land og kaffærði heilu hverfunum á meðan óttaslegnir íbúar reyndu í örvæntingu að komast á hærri grundu. Þögn sló á heimsbyggðina þegar hún fylgdist í hryllingi með sjónvarpsmyndum sem sýndu ógnarkraft flóðbylgjunnar sem fleytti með sér skipum, bílum og heilu húsunum eins og korktöppum.

Flóðbylgjan skildi eftir sig gríðarlega slóð eyðileggingar eins og sést …
Flóðbylgjan skildi eftir sig gríðarlega slóð eyðileggingar eins og sést á þessari mynd frá Miyagi-héraði. AFP

Versta kjarnorkuslysið frá Tsjernóbíl

Þegar yfir lauk lágu 18.500 manns í valnum eða var saknað, flestir þeirra í Miyagi-héraði, og eyðileggingin sem bylgjan skildi eftir sig var nær alger. Það sem gerði illt verra var að sjórinn skall á Fukushima Daiichi-kjarnorkuverinu sem leiddi til þess að þrír kjarnaofnar bræddu úr sér vegna skemmda á kælikerfi þeirra. Við sprengingar í ofnunum losnaði geislavirkt efni út í Kyrrahafið og yfir svæðið í kring. Kjarnorkuslysið var það versta frá Tsjernóbílslysinu í Úkraínu árið 1986.

Slysið í kjarnorkuverinu neyddi á annað hundrað þúsund manns í nærliggjandi byggðum til að yfirgefa heimili sín. Þúsundir starfsmanna vinna enn við að hreinsa upp í kjarnorkuverinu og halda kjarnaofnunum stöðugum en áætlað er að það taki allt að fjóra áratugi að loka þeim alveg.

Um það bil 800.000 tonn af geislamenguðu vatni eru geymd í meira en þúsund tönkum í kjarnorkuverinu og ekkert liggur enn fyrir um hvernig þeim verður fargað á öruggan hátt.

Systkini leggja blómvönd við hafið til minningar um fórnarlömb fljóðbylgjunnar.
Systkini leggja blómvönd við hafið til minningar um fórnarlömb fljóðbylgjunnar. AFP

Finnst eins og hamfarirnar séu enn í gangi

Í heildina er áætlað að hátt í 180.000 manns hafi enn ekki getað snúið til fyrri heimila sinna, þar af um 100.000 vegna kjarnorkuvárinnar. Meira en þriðjungur þeirra býr í bráðabrigðahúsnæði. Margir eru sagðir atvinnulausir, þjást af þunglyndi og eiga erfitt með að halda áfram með líf sitt.

Uppbygging hefur átt sér stað á hörmungasvæðunum með ærnum tilkostnaði þó að hún gangi hægt. Einhverjar byggðir hafa verið færðar til þannig að þær standi hærra yfir sjávarmáli og sjóvarnargarðar hafa verið hækkaðir. Engu að síður hafa margir kosið að snúa ekki aftur þangað og því glíma svæðin við fólksfækkun.

„Í hvert skipti sem ég fer á svæðin sem urðu fyrir þessu finnst mér eins og að hamfarirnar séu ennþá í gangi,“ sagði Abe forsætisráðherra við athöfnina í dag.

Akihito keisari sagði að hjarta hans verkjaði þegar hann hugsaði til fólksins sem gæti enn ekki snúið til síns heima.

Keisarahjónin Akihito og Michiko við opinbera minningarathöfn um fórnarlömb hamfaranna …
Keisarahjónin Akihito og Michiko við opinbera minningarathöfn um fórnarlömb hamfaranna í Tókýó í dag. AFP

Andstaðan við kjarnorku ennþá áberandi

Japönsk stjórnvöld brugðust við kjarnorkuslysinu í kjölfar hamfaranna meðal annars með því að loka öllum kjarnaofnum landsins, herða öryggisreglur og koma á fót sjálfstæðri eftirlitsstofnun til að rjúfa þau þægilegu tengsl sem voru á milli kjarnorkufyrirtækjanna og yfirvalda sem rannsókn leiddi í ljós að hafi átt sinn þátt í slysinu.

Engu að síður er andstaða við kjarnorku enn áberandi í Japan og því hafa áform ríkisstjórnar Abe um að taka kjarnaofnana aftur í notkun mætt töluverðri mótspyrnu. Í þessari viku fyrirskipaði dómstóll að slökkva skyldi aftur á tveimur kjarnaofnum sem höfðu áður fengið grænt ljós frá eftirlitsaðilum vegna mögulegrar hættu fyrir vatnsból í nágreninu ef slys í líkingu við Fukushima-slysið ætti sér stað.

Abe hefur sagt að Japanir geti ekki án kjarnorku verið ef þeir vilja búa við tryggja orkuframleiðslu og láta sitt ekki eftir liggja í baráttu gegn loftslagsbreytingum.

„Ég hafði aldrei ímyndað mér að kjarnorkuver gætu verið hættuleg þangað til Fukushima-slysið átti sér stað,“ segir Shiori Hoshino, 19 ára gamall námsmaður sem tók þátt í mótmælum gegn kjarnorku fyrir utan skrifstofu forsætisráðherrans.

Ekki gleyma Fukushima voru skilaboð mótmælenda gegn kjarnorku í fimm …
Ekki gleyma Fukushima voru skilaboð mótmælenda gegn kjarnorku í fimm ára afmæli kjarnorkuslyssins þar. AFP

Hjörtun hafa ekki enn gróið

Fórnarlamba hamfaranna var minnst víðsvegar um Japan og með ýmsum hætti. Fólk laut höfði, bjöllur hringdu og neðanjarðarlestarkerfi Tókýó stöðvaðist augnablikið þegar fimm ár voru liðin frá stundinni sem jarðskjálftinn reið yfir.

Ríkisfjölmiðilinn NHK sendi út heimildamynd um símaklefa í borginni Otsuchi í Iwate-héraði sem hefur verið breytt í minnisvarða. Í honum getur fólk „hringt“ í látna ástvini í gegnum „síma vindsins“ eða skilið eftir skilaboð til þeirra í minnisbók.

„Sýndu þig fljótt. Komdu fljótt aftur...hvar sem þú ert, ég vona að þú sért á lífi,“ segir gamall maður sem kemur fram í myndinni en lík margra þeirra sem hurfu í hamförunum hafa aldrei fundist. Leitarhópar ganga enn fjörur á hamfarasvæðunum í von um að finna leifar ástvina sinna.

Tvær stúlkur biðja fyrir fórnarlömbum jarðskjálftans og flóðbylgjunnar fyrir fimm …
Tvær stúlkur biðja fyrir fórnarlömbum jarðskjálftans og flóðbylgjunnar fyrir fimm árum í Kamaishi í Iwate-héraði. AFP

Dagblaðið Asahi Shimbun birti umfjöllun um erfiðleika sem börn á hamfarasvæðunum hafa þurft að glíma við undanfarin fimm ár, þar á meðal hinn ellefu ára gamli Sora Sasaki sem missti móður sína, Kanako.

Þrátt fyrir þá efnislegu erfiðleika sem eftirlifendur hörmunganna hafa þurft að þola síðustu árin er það tilfinningalega áfallið sem vegur þyngst á hjarta margra.

„Innviðirnir eru að ná sér, hjörtun eru ekki að því. Ég hélt að tíminn myndi sjá um sitt. Ég held alltaf áfram að sjá andlit þeirra sem létust. Það er svo mikill harmur að ég get ekki lýst honum,“ segir Eiki Kumagai, slökkviliðsmaður í sjálfboðaliðastarfi sem missti fimmtíu og einn starfsbróður sinn í flóðbylgjunni í Rikuzentakata, einu þeirra svæða sem urðu hve verst úti.

„Ég kann ekki við að sjá mynd af mömmu minni vegna þess að það hryggir mig,“ segir Sora við blaðið.

Umfjöllun BBC um hörmungarnar fyrir fimm árum

Washington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert