Fjöldamótmæli gegn stjórn Rousseff

Fjöldi manns mótmælir ríkisstjórn Dilmu Rousseff á Copacabana-ströndinni í Rio …
Fjöldi manns mótmælir ríkisstjórn Dilmu Rousseff á Copacabana-ströndinni í Rio de Janeiro. AFP

Tugir þúsunda Brasilíumanna hafa flykkst út á götur borga landsins í dag til þess að mótmæla ríkisstjórn Dilmu Rousseff, forseta. Risavaxið hneykslismál sem tengist ríkisolíufyrirtæki Brasilíu og versta efnahagslægð í áratugi er það sem brennur helst á mótmælendunum.

Gert er ráð fyrir að meira en milljón Brasilíumanna taki þátt í mótmælunum í dag. Rousseff hefur hvatt mótmælendur til að vera friðsamir.

„Ég held að allir eigi rétt á því að fara út á göturnar en enginn hefur rétt á því að beita ofbeldi. Enginn,“ sagði forsetinn umsetni.

Tillaga um ákæru gegn Rousseff liggur fyrir í þinginu en hún er sökuð um ólöglegar bókhaldsbrellur við ríkisreikninginn til að gera henni kleift að auka opinber útgjöld á meðan hún barðist fyrir endurkjöri sem forseti árið 2014.

Þá hefur samstarfsflokkur Verkamannaflokks Rousseff sagst ætla að draga sig úr ríkisstjórninni eftir mánuð. Til að bæta gráu ofan á svart var forveri hennar í embættinu, Lula da Silva, handtekinn á dögunum og hefur verið bendlaður við hneykslið í kringum ríkisolíufyrirtækið Petrobras.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert