Vilja skýrari reglur um heilsu flugmanna

Franskir lögreglumenn og rannsakendur fara í gegnum flak flugvélar Germanwings …
Franskir lögreglumenn og rannsakendur fara í gegnum flak flugvélar Germanwings sem var viljandi flogið á fjall í fyrra. AFP

Frönsk rannsóknarnefnd sem hefur rannsakað tilfelli Germanwings-flugvélarinnar sem var vísvitandi flogið á fjall kallar eftir skýrari reglum um hvenær megi aflétta trúnaði um sjúkrasögu flugmanna ef þeir sýna merki um andlega erfiðleika. Þá leggur hún til strangari læknisskoðanir fyrir flugmenn.

Hundrað og fimmtíu manns, 144 farþegar og sex manna áhöfn, létust þegar flugmaðurinn Andreas Lubitz flaug vélinni vísvitandi á fjall í Frakklandi í mars í fyrra. Lubitz hafði þjáðst af þunglyndi en fékk að halda áfram að fljúga þrátt fyrir að nokkrir læknar hafi haft vitneskju um ástand hans.

Í lokaskýrslu rannsóknarnefndar flugslysa (BEA) í Frakklandi kemur fram að þeirri vitneskju hafi ekki verið komið áleiðis til flugmálayfirvalda eða vinnuveitanda hans. Þýsk lög meinuðu læknum sem Lubitz leitaði til að láta Germanwings vita af andlegu ástandi hans.

„Skýrari reglna er þörf til að fá það á hreint hvenær það er nauðsynlegt að aflétta trúnaði lækna,“ sagði Arnaud Desjardins, fulltrúi í rannsóknarnefndinni þegar niðurstöðurnar voru kynntar.

Evrópska flugöryggisstofnunin hefur þegar mælt með því að lækniseftirlit með flugmönnum verði hert í kjölfar gjörða Lubitz, þar á meðal sálfræðilegar rannsóknir.

Fjölskyldur nokkurra þeirra sem fórust með flugvélinni ætla að höfða mál gegn flugskólanum sem Lubitz sótti í Phoenix í Bandaríkjunum á þeim forsendum að fulltrúar hans hefðu átt að tilkynna um andleg veikindi flugmannsins. Lubitz hafi meðal annars þurft að taka sér frí frá náminu um tíma vegna þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka