Norski fjöldamorðinginn Anders Breivik segir að einangrun í fangelsi sé verri en dauðadómur. Hann telur að þær aðstæður sem hann býr við séu brot á mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Hægri-öfgamanninum, sem myrti 77 manneskjur árið 2011, hefur verið haldið frá öðrum föngum síðan hann var handtekinn. Sérfræðingar telja að Breivik muni dúsa allt sitt líf á bak við lás og slá en hann var dæmdur í 21 árs fangelsi með möguleika á framlengingu.
Breivik sakar norska ríkið um að brjóta gegn mannréttindum hans með því að hafa haldið honum í einangrun í tæp fimm ár.
Frétt mbl.is: Mun berjast fram í rauðan dauðann
Engin ein skilgreining er til á því en árið 2011 sagði Juan Mendez, sem rannsakar pyntingar fyrir Sameinuðu þjóðirnar, að einangrun væri það þegar fanga er haldið í einangrun frá öðrum, nema fangavörðum, í að minnsta kosti 22 klukkustundir á dag. Mendez hefur krafist þess að einangrun sem stendur lengur yfir en í fimmtán daga verði bönnuð með lögum, að því er kom fram á vef BBC.
Craig Haney, prófessor í sálfræði við Santa Cruz-háskóla í Kaliforníu, hefur rannsakað áhrif einangrunar á bandaríska fanga í áratugi.
Hann segir að sumir upplifi strax mikla hræðslu við að vera settir inn í umhverfi þar sem þeir geta ekki tengst öðru fólki, á meðan aðrir fangar leggist í langtíma þunglyndi og vonleysi.
Með því að fá enga andlega örvun getur gáfnafari hrakað og gloppur í minni myndast. Sumir „verða hreinlega brjálaðir,“ sagði Haney. „Það er öfgafullt dæmi þegar einhver skemmdist svo mikið að það er ómögulegt fyrir hann að ná fyrri bata,“ sagði hann við BBC.
Mendez hefur sagt að einangrun geti jafngilt pyndingum eða ómanneskjulegri meðferð.
Öryggisins vegna fara samskipti Breivik við fangaverði og presta fram í gegnum þykkt gler. Þar fyrir utan hafa einu samskiptin hans við annað fólk augliti til auglits verið þegar hann hitti móður sína án þess að glerið væri á milli þeirra. Sú heimsókn var stutt og náði hann að kveðja hana áður en hún dó, að því er lögmaður Breivik, Oystein Storrvik, sagði.
Þrátt fyrir að Breivik búi í þremur fangaklefum, stundi daglega líkamsrækt, hafi aðgang að tölvu, sjónvarpi og tölvuleikjum og geti eldað og þvegið þvottinn sinn, segir Storrvik að skjólstæðingur sinn skaðist í einangruninni.
Lögmaðurinn vitnaði í skýrslur úr fangelsinu þar sem sagði að Breivik virkaði stundum áttavilltur og gleyminn.
Marius Emberland, lögmaður norsku ríkisstjórnarinnar, sagði að Breivik verði að vera í einangrun vegna þess að hann sé hættulegur maður sem gæti haft áhrif á aðra fanga.
Einnig væri þessi ráðstöfun nauðsynleg til að tryggja öryggi Breivik og minntist Emberland á tilvik þegar annar fangi komst að hurðinni að fangaklefa fjöldamorðingjans og hótaði að drepa hann.
Í þriðju grein segir að enginn skuli verða pyndaður eða meðhöndlaður á ómannúðlegan hátt. Í áttundu grein segir að allir hafi rétt á því að einka- og fjölskyldulíf þeirra sé virt.
Storrvik vill meina að í tilfelli Breivik þýði rétturinn á einkalífi það að hann fái að hafa samskipti við annað fólk. Þess vegna sé verið að brjóta á þessum réttindum hans í fangelsinu.
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur í þó nokkur skipti tekið fyrir mál sem hafa verið höfðuð vegna einangrunar.
Árið 2005 vísaði dómstólinn frá máli Ilich Ramirez Sanchez, betur þekktur sem Sjakalinn, sem dúsaði í einangrun í átta ár í Frakklandi eftir að hann var handtekinn fyrir að myrða þrjá franska lögregluþjóna á áttunda áratugnum.
Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að Sanchez hafi upplifað töluverða, en ekki algjöra, félagslega einangrun. Þess vegna hafi meðferðin á honum ekki verið ómannúðleg. Ástæðan fyrir þessari niðurstöðu var sú að hann fékk reglulega heimsóknir frá lögmanni sínum, sem hann hafði kvænst, auk heimsókna frá 57 öðrum lögfræðingum.
Bandaríski uppljóstrarinn Chelsea Mannig var í átta mánaða einangrun, auk þess sem fangar í Guantanamo hafa verið hvað eftir annað verið látnir dúsa í 30 daga einangrun, samkvæmt Sameinuðu þjóðunum.
Nelson Mandela, fyrrverandi leiðtogi Suður-Afríku, var af og til í einangrun á meðan á 27 ára fangelsistíð hans stóð.
„Mér fannst einangrunin mest ógnvekjandi þegar ég var í fangelsi. Enginn endir og engin byrjun, aðeins hugur manns sem getur byrjað að spila með mann,“ skrifaði Mandela í sjálfsævisögu sinni.
Samtökin Einangrunarvaktin telja að á bilinu 80 til 100 þúsund fangar í Bandaríkjunum dvelji í einhvers konar einangrun. Þau segja einangrun vera auðvelda leið til að hafa stjórn á föngum.
Stundum eru fangar settir í einangrun til að halda þeim frá öðrum föngum vegna þess að þeir eru börn, samkynhneigðir eða hafa kvartað yfir misnotkun af hálfu fangavarða, samkvæmt samtökunum.
Albert Woodfox var í einangrun í rúma fjóra áratugi í fangelsi í Louisiana í Bandaríkjunum eftir að hafa myrt fangavörð árið 1972. Woodfox, sem lýsti ávallt yfir sakleysi sínu, var látinn laus í febrúar síðastliðnum eftir að hafa gengist við manndrápi í von um að mál hans myndi leysast.
Frétt mbl.is: Engar bætur duga fyrir ranglætið