Herða lög um kynferðisbrot eftir árásir í Köln

Mikill fjöldi mótmælti árásum á konur í Köln í janúar.
Mikill fjöldi mótmælti árásum á konur í Köln í janúar. AFP

Ríkisstjórn Þýskalands samþykkti í dag að herða lög landsins um kynferðisbrot svo þau nái yfir þau tilfelli þar sem brotaþoli samþykkir ekki gjörðir gerandans en berst þó ekki líkamlega á móti.

Kanslarinn Angela Merkel og ríkisstjórn hennar skrifuðu undir frumvarpið, sem þarf þó enn samþykki þingsins, í kjölfar faralds kynferðisárása sem reið yfir borgina Köln á nýársnótt.

Dómsmálaráðherrann Heiko Maas segir frumvarpið mikilvægt skref í átt að því að styrkja sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga þegar kemur að kynlífi. Í núgildandi lögum séu óásættanleg skörð í vörn gegn kynferðisbrotum.

„Það er kominn tími til að það breytist,“ segir Maas í yfirlýsingu. „Við skuldum fórnarlömbum árásanna það.“

Hingað til hafa þolendur nauðgana í Þýskalandi ekki aðeins þurft að sýna fram á að þeir hafi neitað gerandanum um kynlíf í orði, heldur einnig að þeir hafi streist líkamlega á móti.

Maas segir að lögin muni nú ná yfir það hvernig flest kynferðisbrot eigi sér í raun stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert