Mikil mótmæli hafa brotist út í Brasilíu eftir að ljóstrað var upp um símtal núverandi forseta Dilmu Rousseff við fyrirrennara sinn, Luiz Inacio Lula da Silva. Þykir símtalið benda til þess að hún hafi skipað hann í embætti til að bjarga honum frá handtöku vegna spillingar.
Rousseff útnefndi Lula sem starfsmannastjóra sinn í gær, í von um að leikni hans í pólitík geti bjargað ríkisstjórn hennar. En Rousseff berst nú við tillögu um vantraust á hendur sér, mikla kreppu í landinu og eftirmála mikils hneykslis sem hverfist um ríkisolíurisann Petrobras.
Aðeins klukkustundum eftir skipun Lula í embættið úrskurðaði dómari, sem fer fyrir rannsókn á málum Petrobras, að opinbera skyldi upptöku lögreglu af símtali forsetanna tveggja, sem benda þykir til þess að aðrar ástæður hafi legið að baki skipuninni.
Rousseff hringdi í Lula til að segja honum að hún myndi senda honum opinbert bréf um skipun hans í embætti starfsmannastjóra, svo hann geti notfært sér það „ef það muni reynast nauðsynlegt“.