Stuðningsmenn fyrrverandi forseta Brasilíu Luiz Inacio Lula da Silva komu saman í stærstu borg landsins, Sao Paulo, í gærkvöldi til þess að sýna forsetanum fyrrverandi stuðning en hann er grunaður um spillingu í starfi. Hæstiréttur Brasilíu svipti hann i í gærkvöldi ráðherratign en Dilma Rousseff, forseti skipaði hann fyrr í vikunni forsetaritara (chief of staff). Með því hefði hann notið friðhelgi gegn saksókn en vegna ákvörðunar hæstaréttar er mál hans aftur komið til sakadóms.
Lula ávarpaði stuðningsmenn sína í Sao Paulo en talið er að tugir þúsunda hafi mætt til þess að sýna forsetanum fyrrverandi stuðning.
En þrátt fyrir fjölmenni á stuðningsfundi með ríkjandi valdhöfum, það er forseta og fyrrverandi forseta Verkamannaflokksins, þá hafa mun fleiri mætt á fundi víðsvegar um Brasilíu þar sem þess er krafist að Rousseff fari frá völdum. Bæði vegna spillingarmála og vegna slakrar stöðu Brasilíu í efnahagsmálum.
Það að hún hafi reynt að bjarga lærimeistara sínum og forvera í starfi, Lula, undan saksókn með því að skipa hann forsetaritara hefur enn aukið á andstöðu almennings við hana og er hún undir miklum þrýstingi um að segja af sér.