Enn eru fréttir af sprengingunum í Brussel óljósar en hér að neðan eru nokkur atriði sem hafa komið fram í fréttum í morgun.
- Vitað er að tvær sprengjur sprungu á flugvellinum í Brussel í morgun.
- Þriðja sprengjan sprakk í neðanjarðarlestarkerfinu nálægt byggingum Evrópusambandsins um klukkustund síðar, á háannatíma.
- Fréttir um mannfall eru misvísandi er nú, kl. 11.30, segja fjölmiðlar í Belgíu að 26 séu látnir og 35 særðir eftir sprengingarnar þrjár. Enn hafa yfirvöld ekki staðfest þennan fjölda. Guardian segir að óttast sé að 28 hafi látist. Staðfest er að 13 létust í sprengingunum á flugvellinum og talið er að 15 hafi látist á neðanjarðarlestarstöðinni.
- Belgar sem búa í nágrenni við Zaventem flugvöllinn er hvattir til að koma með teppi, vatn og mat í íþróttahús þar skammt frá sem hefur verið breytt í hjálparmiðstöð fyrir særða sem ekki hafa þurft á flutningi á sjúkrahús að halda.
- Viðbúnaðarstig í Brussel vegna hryðjuverkaógnar hefur verið hækkað í efsta og 4. stig.
- Neðanjarðarlestarkerfinu hefur verið lokað.
- Öllu flugi um flugvöllinn í Brussel hefur verið aflýst, m.a. flugi Icelandair.
- Í raun hefur borginni allri verið lokað, almenningssamgöngur ganga ekki og landamærunum að Frakklandi hefur verið lokað.
- Ríkissaksóknari í landinu segir staðfest að um sjálfsmorðssprengjuárás var að ræða á flugvellinum í Brussel.
- Á síðustu dögum hafa verið handteknir menn í Brussel sem sagðir eru tengjast hryðjuverkaárásinni í París. Meðal þeirra var Salah Abdeslam, sem hefur verið eftirlýstur frá því skömmu eftir voðaverkin.
- Búið er að auka öryggisviðbúnað á flugvöllum víða í Evrópu.
- Lýsingar á atburðum morgunsins í Brussel er skelfilegar. Sagt er að skothríð hafi heyrst áður en sprengt var á flugvellinum og fólk lýsir skerandi ópum barna er sprengjan sprakk á neðanjarðarlestarstöðinni.
- Á myndum sem birtar hafa verið frá flugvellinum má sjá mikla eyðileggingu blasa við.
Blóð út um allt
Zach Mouzoun, sem kom á flugvöllinn í Brussel í morgun með flugi frá Genf var lentur um tíu mínútum áður en fyrsta sprengjan sprakk. Hann segir að síðari sprengjan hafi verið öflugri og að er hún sprakk hafi loftið hrunið og leiðslur sprungið. Vatn úr vatnslögnum hafi blandast blóði fórnarlambanna á gólfinu.
„Þetta var svakalegt. Loftið hreinlega hrundi,“ segir hann í samtali við franska sjónvarpsstöð. „Það var blóð úti um allt, sært fólk. Við gengum í gegnum brak. Þetta var eins og vígvöllur.“