184 ára skjaldbaka í sitt fyrsta bað

Jónatan fékk gulrót eftir baðið.
Jónatan fékk gulrót eftir baðið. Skjáskot af Youtube

184 ára risaskjaldbaka, elsta dýr jarðar, hefur fengið sitt fyrsta bað. Skjaldbakan heitir Jónatan og tilefni baðsins er það að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar er á leið í heimsókn á eyjuna þar sem hann býr, St Helena. Eyjan, sem er í Suður-Atlantshafi er undir yfirráðum Breta.

Það var dýralæknir sem sá um að baða Jónatan og skrapa af honum óhreinindi síðustu tveggja alda. Til verksins var notaður mjúkur bursti og sérstök sápa, sömu tegundar og skurðlæknar nota. Enginn heilsufarslegur tilgangur var með baðinu, aðeins að sá að þrífa af honum fuglaskít og sveppagróður. Á meðan baðinu stóð tuggði Jónatan gras í makindum.

Dýralæknirinn Joe Hollins segir að hins vegar hafi komið í ljós eftir baðið að árhringir á baki skjaldbökunnar eru nánast horfnir.

Jónatan var fimmtíu ára gamall þegar hann var fluttur frá Seychelles-eyjum til St Helena. Þetta var á síðari hluta nítjándu aldar og var Jónatan gjöf Seychelles-eyja til ríkisstjórans á St Helenu.

„Hann yngdist nú ekkert við baðið en hann lítur þó öðru vísi út. Hann er mjög fölari nú og eins og sjá má hafa árhringir hans nánast alveg þurrkast út,“ segir dýralæknirinn í frétt Telegraph um málið.

Hér má sjá myndband af baðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert