Það má segja að Rob Ford, fyrrverandi borgarstjóri Toronto í Kanada, hafi horfið af sjónarsviði heimspressunnar jafn snögglega og hann birtist á því. Í gær var greint frá því að hinn skrautlegi og umdeildi Ford hefði lotið í lægra haldi fyrir sjaldgæfu afbrigði magakrabbameins (pleomorphic liposarcoma), aðeins 46 ára gamall.
Hann er einna þekktastur fyrir að hafa komið sér reglulega klandur sem oftar en ekki tengdist áfengis- og vímuefnavanda sem hann glímdi við.
„Fjölskylda okkar hefur gengið í gegnum allt - frá morði til fíkniefna og að ná góðum árangri í viðskiptalífinu,“ lét Ford eitt sinn hafa eftir sér í viðtali við Toronto Star. „Enginn getur sagt neitt hneykslanlegt við mig.“
Við einfalda leit í gagnasafni mbl.is kemur í ljós að fyrsta fréttin sem var skrifuð um Ford er frá því í nóvember 2012, en þar var sagt frá því að dómstóll í Kanada hefði fyrirskipað að Ford yrði settur af sem borgarstjóri fyrir að brjóta gegn reglum um hagsmunatengsl þegar hann stóð að því að útvega fótboltafélaginu sínu framlög úr borgarsjóði.
Leiðin átti aðeins eftir að fara niður á við eftir þessa frétt, því í maí 2013 var greint frá því að Ford hefði reykt krakk og að atvikið væri til á myndskeiði. Ford neitaði þessu staðfastlega til að byrja með, en ekki leið á löngu þar til hið sanna kom í ljós. Í nóvember 2013 viðurkenndi borgarstjórinn svo sök.
Myndskeið sem sýnir þegar Ford neitar að hafa reykt krakk
Í meðfylgjandi myndskeiði viðurkennir Ford sök
Ford fæddist í Etobicoke, sem er vestur af Toronto, 28. maí 1969, sonur Doug Ford eldri og Ruth Diane. Hann var yngstur fjögurra systkina, og átti hann sér ungur þann draum að verða atvinnumaður í ruðningi. Faðir hans var kaupsýslumaður og átti sæti á héraðsþingi Ontario. Doug Ford rak prentsmiðjuna Deco Labels and Tags, sem fjölskyldan á enn þann dag í dag. Rob Ford var um tíma á meðal æðstu stjórnenda fyrirtækisins.
Ford gekk í háskólann í Carleton en útskrifaðist ekki. Hann sneri aftur heim til að sinna systur sinni sem hafði glímt við heróínfíkn. Nokkrum árum síðar var systir hans myrt, en fyrrverandi kærasti hennar skaut hana í höfuðið á heimili foreldra þeirra.
Ford kvæntist æskuástinni, Renötu Brejniak, árið 2000 og eignaðist með henni tvö börn. Renata hefur sjaldan sést opinberleg og hefur verið kölluð „ósýnilega eiginkonan“. Árið 2008 var Ford ákærður fyrir heimilisofbeldi gagnvart eiginkonu sinni en málið var svo fellt niður.
Á seinni hluta tíunda áratugarins hóf Ford afskipti af stjórnmálum fyrir alvöru og frá 2000 til 2010 var hann borgarfulltrúi í Toronto, sem er fjölmennasta borg Kanada. Í kosningunum 2010 vann Ford sigur og komst til valda sem borgarstjóri, en hann hlaut 47% atkvæða en meirihluti stuðningsins kom úr úthverfum borgarinnar, en stuðningsmenn hans voru kallaðir "Ford Nation". Hann lagði áherslu á það í kosningabaráttu sinni að borgarstjórn yrði að fara varlega með skattfé, draga úr allri sóun, auka hagræðingu og hélt hann þéttingsfast utan um fjárhirslur borgarsjóðs. Hann hélt því fram að forverar hans í borgarstjórn hefðu farið illa með skattfé og notað fjármuni í gæluverkefni og ýmiskonar óþarfa, sem hann kallaði "the gravy train".
Eins og greint hefur verið frá, var Ford lunkinn við að koma sér í vandræði og láta ýmis óheppileg og beinlínis ruddaleg ummæli falla, bæði á borgarstjórnarfundum og í samtölum við fjölmiðla. Árið 2013 var þrýst á Ford að segja af sér, bæði meðal andstæðinga og fyrrverandi stuðningsmanna hans í borginni, eftir að hann viðurkenndi að hafa reykt krakk er hann var ofurölvi.
Það var á því tímabili sem fréttir birtust reglulega af Ford, sem neitaði að segja af sér og hóf kosningabaráttu til að sækjast eftir endurkjöri. Toronto Star fjallaði um málið og sagði að það væri opinbert leyndarmál innan borgarstjórnarinnar að Ford ætti við áfengisvanda að glíma.
Ford viðurkenndi loks að hann hefði stigið feilspor og hann myndi draga úr drykkjunni, en það kom að því að hann varð að viðurkenna að hann hefði reykt krakk „líklega í einhverju fylleríi“. Hann sagðist hins vegar ekki ætla að segja af sér. „Við verðum að halda áfram vinnu við að færa Toronto fram á við. Ég var kosinn til að sinna verkefni og það er nákvæmlega það sem ég ætla að halda áfram að gera.“
Ekki leið á löngu þar til annað vafasamt myndskeið birtist opinberlega. Í því sést Ford ausa fúkyrðum og hóta því að rífa barkann úr ónefndum manni. Ekki liggur fyrir hvers vegna Ford var svona reiður, en borgarstjórinn sagðist hafa verið drukkinn þegar það var tekið upp og að þetta hefði verið mjög vandræðalegt.
Myndskeið sem sýnir þegar Ford hótar ónefndum manni og lætur út úr sér ýmis fúkyrði í æðiskasti.
Í kjölfar seinna myndskeiðsins sögðu móðir hans og systir, að þarna hefði borgarstjórinn sýnt af sér óviðunandi hegðun. Þær tóku hins vegar fram að hann hefði unnið vel í þágu borgarinnar. Þá var systir hans, Kathy Ford, spurð að því hvort hún teldi að bróðir hennar væri áfengissjúklingur. „Það fer eftir því hvað þú telur að sé áfengissjúklingur,“ var svar hennar.
Árið 2014 sóttist Ford eftir endurkjöri í kosningum sem fóru fram október sama ár. Fjórir lýstu yfir mótframboði gegn sitjandi borgarstjóra.
Það ár skutu fleiri upptökur upp kollinum, m.a. hljóðupptaka af Ford fara niðrandi orðum um Karen Stintz, sem bauð sig fram gegn honum í borgarstjórnarkosningunum, sem og aðra stjórnmálamenn.
Þá birtust upplýsingar úr lögregluskjölum um að Ford hefði haft í hótunum við íþróttaþjálfara, talað með niðrandi hætti um aðra kynþætti, hótað starfsmönnum, haft kynferðislega tilburði við samstarfskonu sína og neytt kókaíns á veitingastað. Ford neitaði öllum ásökunum.
Myndskeið sem sýnir Ford skipa fréttamönnum og ljósmyndurum að hypja sig.
Í maí 2014 fór borgarstjórinn í meðferð en hann sneri aftur til starfa í sama mánuði. Hann hélt því fram að þetta hefði bjargað lífi hans og var hann staðráðnari í því að ná endurkjöri. Skoðanakannanir bentu til þess að hann nyti næstmest stuðnings frambjóðendanna fimm.
Í september sama ár var Ford lagður inn á sjúkrahús eftir að hafa fundið fyrir miklum kviðverkjum. Nokkrum dögum síðar dró hann framboð sitt til baka og tók Doug Ford, bróðir borgarstjórans, við.
Rob Ford náði hins vegar kjöri sem almennur borgarfulltrúi, en hann hélt áfram að gangast undir meðferð.
Í maí í fyrra gekkst Ford undir skurðaðgerð til að láta fjarlægja krabbameinsæxli. Meinið hafði hins vegar náð að dreifa og fram kemur í kanadískum fjölmiðlum að Ford hafi verið í miðri lyfjameðferð þegar hann andaðist.