Íbúar þýska bæjarins Haltern am See minntust þeirra þeirra sem létust þegar þota Germanwings fórst fyrir ári síðan. Sextán ungmenni úr bænum og tveir kennarar þeirra létust þegar flugmaður vélarinnar flaug henni á fjallshlíð í frönsku Ölpunum á leið frá Barcelona til Düsseldorf. 150 fórust með vélinni.
„Þið eruð ekki ein í sorg ykkar,“ skrifaði Angela Merkel, kanslari í bréfi sem hún skrifaði til foreldra nemendanna sem fórust. Merkel sendi þeim bréfið í dag þar sem hún sagði að öll þýska ríkisstjórnin væri með þeim í huga sem og fjölmargir aðrir.
Myndir af fórnarlömunum hanga við innganginn á Joseph König skólanum en nemendurnir voru á heimleið eftir skiptinám við Giola stofnunina í bænum Llinars del Vallès skammt frá Barcelona þegar flugvélinni var flogið viljandi á hamrabeltið af flugmanni hennar, Andreas Lubitz.
Fjölmargir ættingjar þeirra sem létu lífið komu saman í Barcelona í gær ásamt björgunarmönnum og Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar. Á báðum stöðum voru afhjúpaðir minningarskildir um hið örlagaríka flug og þá sem týndu lífi í ódæðinu.
Einn þeirra sem tóku til máls í gær var Silvia Chaves, sem fer fyrir samtökum aðstandenda þeirra sem létust. „Við viljum koma í veg fyrir að hörmungar sem þessar endurtaki sig,“ sagði hún og hélt áfram: „Við verðum að vinna áfram að auknum öryggisráðstöfunum því við vitum öll að þær brugðust“.
Flugriti farþegaþotunnar leiddi í ljós þá miklu skelfingu sem greip um sig meðal farþega og áhafnar vélarinnar síðustu mínútur flugsins. Mátti þar meðal annars heyra flugstjórann, Patrick Sondheimer, öskra „opnaðu fjárans dyrnar“ að Lubitz þegar hann gerði örvæntingarfulla tilraun til þess að brjóta sér leið með exi í gegnum læstar dyr flugstjórnarklefans.