Stríðsglæpadómstóll Sameinuðu þjóðanna hefur dæmt Radovan Karadzic sekan um að bera ábyrgð á þjóðarmorðunum í Srebrenica. Hann er jafnframt fundinn sekur um morð, ofsóknir og mannrán. Dómstóllinn dæmdir hann í dag í fjörtíu ára fangelsi fyrir glæpi sína á tímum Bosníustríðsins.
Stríðsglæpadómstóll Sameinuðu þjóðanna hefur vísað frá annarri af tveimur ákærum á hendur Radovan Karadžić , fyrrverandi leiðtoga Bosníu Serba. Verið er að lesa upp dóminn en hans hefur verið beðið lengi. Karadžić er hins vegar sakfelldur fyrir að bera ábyrgð á morðum, ofsóknum og mannránum.
Segir í niðurstöðu dómsins að ekki séu fullnægjandi sannanir fyrir því að þjóðarmorð hafi verið framin í þessum sveitarfélögum á tímum Bosníustríðsins, 1992-1995.
Ákæran yfir Karadžić er í ellefu liðum en hann var meðal annars sakaður um þjóðarmorð á tímum stríðsins á Balkanskaganum. Karadzic var í dag dæmdur sekur um verstu grimmdarverk sem unnin hafa verið í Evrópu frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar. Auk þess að vera dæmdur sekur um að bera ábyrgð á þjóðarmorðum þá var hann fundinn sekur í níu öðrum liðum ákærunnar. Hann var hins vegar sýknaður af ákæru um að hafa framið þjóðarmorð í sjö bosnískum bæjum og þorpum á tímum Bosníustríðsins.
Karadžić var í dag dæmdur bera ábyrgð á því þegar um 8 þúsund karlmenn voru myrtir í borginni Srebrenica í Bosníu. Karadžić var handtekinn árið 2008 eftir að hafa farið huldu höfði í 13 ár og er í haldi í Haag en réttarhöldunum yfir honum lauk í október 2014.
Í grein sem birt var í Morgunblaðinu árið 2008 eftir handtöku hans kom fram að Karadžić , sem oft var nefndur „Bosníu-slátrarinn“, hafi látið sig hverfa 1997 og ljóst þyki að hann hafi notið aðstoðar áhrifamanna í Serbíu til að sleppa við handtöku allan þennan tíma.
Hann skipulagði þjóðernishreinsanir í Bosníu-Herzegóvínu þegar hann var forseti svonefnds Lýðveldis Serba þar í landi. Múslímar og Króatar voru ofsóttir og tugþúsundir lágu í valnum áður en yfir lauk. Hann var ofstækisfullur, serbneskur þjóðernissinni og vildi tryggja að engin nema Serbar byggju á þeim svæðum sem þeir réðu. Þess vegna lét hann hrekja burt eða myrða aðra sem þar bjuggu.
Serbneska leynilögreglan handsamaði Karadžić nálægt Belgrad eftir að hafa fylgst með honum í nokkrar stundir; var hann þá staddur í strætisvagni. Fram kemur í dagblaðinu Politika í Serbíu að hann hafi verið með sítt skegg og hár og borið gleraugu, einnig virðist hann hafa grennst. Hann var með tösku meðferðis og virðist sem að hann hafi ætlað að yfirgefa Belgrad. Karadzic veitti ekki viðnám þegar hann var handtekinn.
Embættismenn Serba segja að lögreglan hafi verið að leita að Ratko Mladic, yfirhershöfðingja Bosníu-Serba, sem einnig er eftirlýstur fyrir stríðsglæpi og þá hafi þeir óvænt fundið Karadzic. Margt er enn óljóst um ferðir Karadzic síðustu 13 árin en hann er sagður hafa þóst vera munkur og oft falið sig í hellum og síðar klaustrum í austanverðri Bosníu.
Þá var um tíma talið að hann hefði flúið til Rússlands og leitað skjóls meðal rússneskra þjóðernissinna sem studdu Bosníu-Serba í Bosníustríðinu á árunum 1992-1995. Rússar eru sögulega séð ein helsta vinaþjóð Serba, báðar þjóðirnar eru í Réttrúnaðarkirkjunni og tala skyld mál.
Viðbrögð Rússa við handtöku Karadzic voru þau að segja að um innanríkismál Serba væri að ræða. Fulltrúi Rússa hjá Atlantshafsbandalaginu, Dmítrí Rogozín, sagði að rétta bæri yfir vestrænum embættismönnum sem hefðu drýgt stríðsglæpi með loftárásum á Serbíu í Kosovostríðinu 1999.
Serbneskur embættismaður sagði að Karadzic hefði lagt stund á óhefðbundnar lækningar á læknastofu í úthverfi Belgrad. Hann hefur einnig skrifað reglulega greinar um það efni í serbneskt heilsutímarit undir nafninu Dragan Dabic. Allt bendir til þess að Karadzic hafi treyst dulargervi sínu svo vel að hann hafi ekki einu sinni reynt að dyljast síðustu árin og hagað daglegu lífi sínu eins og hver annar borgari.
„Það hvarflaði aldrei að mér, að þessi maður með síða, hvíta skeggið og hárið væri Karadzic,“ sagði Goran Kojic, ritstjóri blaðsins Heilsusamlegt líferni. Kojic þekkti greinarhöfundinn þegar hann sá myndir sem dreift var af Karadzic eftir handtökuna.