Najim Laachraoui var góður nemandi og aldrei til vandræða í kaþólska skólanum í Brussel þar sem hann stundaði nám. Laachraoui er annar þeirra tveggja sem sprengdu sig upp á flugvellinum í heimaborginni á þriðjudag. Daginn áður hafði lögreglan borið kennsl á lífsýni úr honum á sprengjuefni sem notað var við árásirnar í París í nóvember. Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams voru á bak við báðar árásirnar.
Vinir og ættingar Laachraoui, sem var 24 ára gamall, minnast góðs drengs sem elskaði að leika sér í frisbí og fótbolta.
„Ég skil ekki hvernig hægt er að heilaþvo einhvern á svo skömmum tíma,“ segir Brice Vanhee, félagi hans úr háskóla. Þeir voru saman á fyrsta ári í rafmagnsverkfræði árið 2012.
Vanhee bætir við að það sé gjörsamlega óskiljanlegt hvernig hægt sé að breytast svona og sprengja þig upp þegar þú varst vanur að spila frisbí með félögunum allar helgar. „Ég næ þessu ekki?“
Á mynd sem Vanhee deildi á Facebook sjást átta námsmenn, þar á meðal Laachraoui, brosandi framan í myndavélina á tröppum tækniháskólans í Brussel.
Vanhee segir að þeir Laachraoui hafi verið saman í hópi sem lærði saman og þeir hafi hist í hverri viku. Aldrei hafi borið á neinu misjöfnu. Talskona háskólans, Valerie Bombaerts, segir í viðtali við AFP að Laachraoui hafi lokið fyrsta árinu en hætt eftir það. Hann hafi borið því við að námið þar ætti ekki við hann og hann ætlaði frekar að fara í læknisfræði.
Skólastjórann í kaþólska skólanum þar sem hann lauk námi árið 2000 segist hreinlega ekki vita hvað hafi gerst. Hann hafi verið góður nemandi og óaðfinnanlega framkomu. „Hann þurfti aldrei að sitja eftir um bekk,“ segir Veronica Pellegrini skólastjóri í Sainte-Famille d'Helmet Institute í Schaerbeek hverfinu í Brussel.
Yngri bróðir Najim Laachraoui, Mourad, 20 ára keppandi í taekwondo á heimsmælikvarða, sagði við blaðamenn í gær að bróðir hans hafi verið eðlilegur ungur trúaður maður og þegar hann hafi snúist til öfgaskoðana hafi það skelft fjölskylduna. „Hann var góður drengur og einstaklega vel gefinn,“ segir Mourad og bætti við að bróðir hans hafi haft áhuga á fótbolta og lestri bóka.
Þrátt fyrir það hafi einkunnir hans verið lélegar á fyrsta ári í háskóla og hann hafi rétt náð prófunum. Í febrúar 2013 skrópaði hann í skólann þegar hann fór til Sýrlands eftir að hafa flutt að heiman í byrjun ársins þegar fjölskyldan flutti í nýja íbúð. Það næsta sem þau heyrðu frá honum var þegar hann hringdi til að láta þau vita að hann væri farinn til Sýrlands. Þau hringdu og létu lögreglu vita en þetta var í síðasta skiptið sem fjölskyldan heyrði frá Laachraoui.
Mourad segir að bróðir hans hafi iðkað íslam líkt og aðrir í fjölskyldunni og að þau hafi aldrei orðið vör við að hann hafi snúist til öfgaskoðana á meðan hann bjó heima.
Laachraoui kom aftur upp á yfirborðið 9. september 2015, tveimur mánuðum fyrir árásirnar í París, þegar hann var stöðvaður af lögreglu á landamærum Austurríkis og Ungverjalands. Í skýrslu lögreglu kemur fram að hann framvísaði fölsuðum skilríkjum undir nafninu Soufiane Kayal.
Auk hans voru þeir Salah Abdeslam, sem er í haldi lögreglu í tengslum við árásirnar í París, og Mohamed Belkaid, sem var skotinn til bana í aðgerðum lögreglu í Brussel 15. mars. Belkaid framvísaði einnig fölsuðum skilríkjum með nafninu Samir Bouzid.
Leifar af lífsýni Laachraoui fundust á sprengju sem var notuð í árásunum í París, þar á meðal á Bataclan þar sem 90 manns létust. Eins fundust lífsýni úr honum í íbúð sem tilræðismennirnir héldu til í áður en árásin var gerð í París. Jafnframt fundust lífsýni úr honum í íbúð í Schaarbeek hverfinu í Brussel þar sem talið er að sprengjurnar hafi verið framleiddar. Lögreglan telur að Laachraoui hafi búið til sprengjurnar sem notaðar voru í árásunum í París og rannsakar nú hvort hann hafi verið einn af höfuðpaurunum.