Hassan skrifar ljóð í gæsluvarðhaldinu

Yahya Hassan heimsótti Ísland árið 2014.
Yahya Hassan heimsótti Ísland árið 2014. mbl.is/Golli

Danska metsöluljóðskáldið Yahya Hassan var nýverið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald vegna gruns um að hann hefði skotið 17 ára pilt í fótinn sl. sunnudag. Í yfirheyrslu fyrir dómi í undirrétti Árhúsa hélt verjandi Hassan fram sakleysi umbjóðanda síns og tilkynnti að hann hygðist áfrýja gæsluvarðhaldsúrskurðinum. „Yahya Hassan upplýsir að honum líður vel og hann vinnur að nýrri ljóðabók,“ hefur danska dagblaðið Politiken eftir Hanne Ziebe, verjanda hans.

Á síðustu vikum hefur Hassan á opnum Facebook-vegg sínum birt fjölda ljósmynda, myndbanda og yfirlýsinga í tengslum við útistöður sínar við ýmsar danskar glæpaklíkur, m.a. Black Army.

Yahya Hassan
Yahya Hassan mbl.is/Kristinn

Í viðtali við danska dagblaðið Metroxpress fyrr í þessum mánuði hélt Hassan því fram að þrisvar hefðu menn reynt að ráða hann af dögum á sl. tveimur mánuðum. Sem dæmi var í seinasta mánuði kveikt í stigaganginum þar sem móðir hans býr meðan hann var í heimsókn hjá henni og um miðjan þennan mánuð lýsti Hassan því hvernig hann stökk í veg fyrir bíl á ferð til að flýja undan vopnuðum mönnum. Sjálfur er Hassan sannfærður um að gagnrýni hans á íslam sem birtist í fyrstu ljóðabók hans, sem út kom í október 2013 og prentuð hefur verið í ríflega 100.000 eintökum vegna mikilla vinsælda, framkalli það ofbeldi sem hann hafi orðið fyrir að undanförnu.

Danski sálfræðingurinn Henrik Day Poulsen telur ljóst að Hassan eigi erfitt með að finna sér hlutverk. „Það er mjög erfitt að takast á við skyndilega frægð. Annað hvort hefur hann ekki fengið góða leiðsögn um hvernig best sé að höndla það, eða hunsar allar góðar ráðleggingar,“ hefur Metroxpress eftir sálfræðingnum.

Ný ljóðabók væntanleg í haust

Hassan reyndi sem kunnugt er fyrir sér í stjórnmálum, en í síðustu þingkosningum í Danmörku var hann í framboði fyrir Nationalpartiet (Þjóðarflokkinn). Leiðtogar flokksins ákváðu hins vegar að vísa honum úr flokknum í seinasta mánuði í kjölfar þess að Hassan var handtekinn fyrir að keyra undir áhrifum fíkniefna. Hassan fer ekki dult með fíkniefnaneyslu sína og birtir óhikað myndir því til sönnunar á Facebook-vegg sínum.

Í samtali við danska dagblaðið BT bendir Lasse Gammeljord, sérfræðingur í kynningarmálum og forstjóri BullsEye Communications, á að framferði Hassan síðustu vikur geti verið upptaktur að væntanlegri ljóðabók og með ráðum gert til að skapa umtal um hann. Hann vill þó ekki meina að um úthugsað bragð í kynningarmálum sé að ræða. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert