Kveikt í húsnæði ætluðu flóttabörnum

Sænska lögreglan
Sænska lögreglan AFP

Kveikt var í húsi sem áður hýsti leikskóla í sænska bænum Åkers í gærmorgun en breyta átti húsinu í miðstöð fyrir hælisleitendur. Lögregla er fullviss um að kveikt hafi verið í húsinu.

Viðvörunarkerfi hússins fór af stað skömmu áður en eldurinn kviknaði sem bendir til íkveikju, segir í frétt sænska ríkisútvarpsins. Hafin er rannsókn á eldsvoðanum, segir Mikael Eriksson, yfirlögregluþjónn í Sörmland.

Eldurinn kviknaði á þriðja tímanum aðfararnótt föstudags og eru skemmdir töluverðar á húsinu, einkum reyk- og sótskemmdir. Mionica Lindell Rylén, bæjarfulltrúi, segir að íkveikjan sé ömurleg fyrir þá sem áttu að fá aðstoð í húsinu, þar á meðal börn sem eru án fylgdar á flótta. Húsið hefur staðið autt síðan í haust en frá þeim tíma hefur staðið til að breyta því í dagsetur og skýli fyrir flóttabörn sem eru ein á flótta.

Búið var að sækja um leyfi fyrir breytingum á húsnæðinu og unnið var að fjárhagsáætlun og fjármögnun verkefnisins sem var ætlað börnum í vanda. Öfgamenn hafa ítrekað kveikt í húsnæði hælisleitenda í Svíþjóð undanfarin misseri og reynt að fara leynt með fyrirætlanir um að breyta húsnæði til þess að koma í veg fyrir að glæpamenn kveiki í því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert