Vilja að fjöldagöngu verði frestað

Gangan á að hefjast á Place de La Bourse torginu …
Gangan á að hefjast á Place de La Bourse torginu en þar hefur fólk safnast saman til þess að minnast fórnarlambanna. AFP

Yfirvöld í Belgíu hafa beðið fólk um að mæta ekki á fjöldagöngu í Brussel á morgun vegna hryðjuverkaárásanna í borginni á þriðjudaginn. Óttast yfirvöld um öryggi þátttakenda og hafa því lagt til að viðburðinum verði frestað um nokkrar vikur.

Innanríkisráðherrann Jan Jambon sagði í dag að réttast væri að fresta göngunni en hún á að heita „March against Fear“ eða „Gengið gegn ótta“. Að sögn skipuleggjanda eigi gangan að sýna að Brussel og landið í heild neiti að láta hryðjuverk ógna sér og að allir stæðu saman.

„Í vikunni var ráðist á okkur, belgíska borgara, á hvernig við lifum, siði okkar, réttindi og frelsi,“ sagði í yfirlýsingu skipuleggjenda þar sem fólk var hvatt til þess að láta vonina vera sterkari en óttann.

Gangan á að byrja klukkan 14 á morgun eða 13 að íslenskum tíma á Place de La Bourse torginu en þar hafa þúsundir minnst fórnarlambanna síðustu daga.

Borgarstjóri Brussel, Yvan Mayeur sagðist skilja og þekkja tilfinningar þeirra sem vilji taka þátt á morgun en sagðist vera sammála yfirvöldum um að best væri að fresta göngunni. Sagði hann að lögregla þyrfti allan sinn kraft til þess að rannsaka árásirnar.

31 lét lífið í hryðjuverkaárásunum í borginni en 300 særðust.  

Innanríkisráðherra Belgíu, Jan Jambon
Innanríkisráðherra Belgíu, Jan Jambon AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert