Lögreglan í Belgíu er enn að reyna að fá heildarmynd af hópnum sem gerði árásirnar í Brussel fyrir viku. Í dag var látinn laus úr haldi eini maðurinn sem hafði verið ákærður vegna árásanna. Ríki íslams hefur lýst yfir ábyrgð á þeim.
Þegar er orðið ljóst að hópurinn í Brussel tengdist öðrum hópum víðs vegar um Evrópu og hafa lögregluyfirvöld í mörgum löndum reynt að stilla saman strengi til að afhjúpa netið sem teygir anga sína um alla álfuna.
Aðeins fjórum mánuðum eftir að hryðjuverkamenn létu til skarar skríða í París segjast yfirvöld þar í borg hafa komið í veg fyrir aðra árás sem þar var fyrirhuguð. Húsleitir voru gerðar á tveimur stöðum og í þeim fannst m.a. töluvert magn vopna og skotfæra. Enn hafa litlar upplýsingar verið gefnar um málið en þó er ljóst að í árásinni ætluðu að taka þátt menn frá Frakklandi, Belgíu og Hollandi.
Lögreglan birti í dag myndband af þriðja manninum sem sást á eftirlitsmyndavél á flugvellinum í Brussel þann 22. mars. Hann hefur hingað til verið kallaður „maðurinn með hattinn“. Með honum í för voru tveir menn sem skömmu eftir að myndin var tekin gerðu sjálfsmorðsárásir í borginni, annar á flugvellinum en hinn í neðanjarðarlest. „Maðurinn með hattinn“ flúði hins vegar af vettvangi, líklega eftir að sprengjuvesti hans stóð á sér.
Maður sem kallaður hefur verið Faycal C. var handtekinn og ákærður fyrir aðild að árásunum. Lögreglan taldi hann vera „manninn með hattinn“. En honum var sleppt úr haldi í dag vegna skorts á sönnunargögnum.
Najim Laachraoui, annar þeirra sem gerði sjálfsvígsárás á flugvellinum, er talinn hafa búið til sprengjur sem sprengdar voru í Brussel og í hryðjuverkunum í París í nóvember.
Saksóknari í Belgíu upplýsti á föstudag að erfðaefni úr Laachraoui hefði fundist á sprengjuvestum sem fundust í Bataclan-tónleikahöllinni í París sem og á sprengju við Stade de France-leikvanginn.
Franska lögreglan segist hafa komið í veg fyrir yfirvofandi árás með því að handtaka Reda Kriket, 34 ára, síðastliðinn fimmtudag. Í íbúð í úthverfi Parísar fundust einnig skotfæri. Í annarri íbúð fann lögreglan fimm Kalashnikov-riffla, vélbyssu, sjö skammbyssur og sprengiefni. Innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, segir að undirbúningur árásarinnar hafi verið langt kominn.
Á föstudag handtók lögreglan í Belgíu tvo menn sem taldir eru hafa komið að skipulagningu þeirrar fyrirhuguðu árásar.
Kriket var á síðasta ári dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir tengsl sín við hryðjuverkahóp með tengsl við Sýrland. Abdelhamid Abaaoud, höfuðpaur árásanna í París, var einnig ákærður í því máli.
Leiðtogi hryðjuverkahópsins var Khalid Zerkani, 41 árs maður frá Brussel. Hann hefur staðið fyrir umfangsmikilli nýliðun í hópi öfgamanna í Belgíu. Meðal þeirra sem fóru til Sýrlands fyrir tilstilli þessa hóps voru Abaaoud og Chakib Akrouh, sem einnig tók þátt í árásunum í París.
Zerkani er einnig talinn vera lærifaðir Laachraoui.
Mennirnir tveir sem handteknir voru í Belgíu, grunaðir um að hafa lagt á ráðinn ásamt Kriket um aðra árás í Frakklandi, eru sagðir heita Abderamane A. og Rabah N. Þeir hafa verið ákærðir fyrir þátttöku í hryðjuverkahópi.
Abderamane A., sem lögreglan skaut í fótinn eftir eftirför við sporvagnastoð í Brussel, er talinn reynslumikill skæruliði. Hann var sakfelldur í París árið 2005 fyrir að starfa með hópi sem veitti morðingjum afganska stjórnarandstæðingsins Ahmad Shah Massoud, upplýsingar. Massoud var drepinn árið 2001.
Hollenska lögreglan fann svo skotvopn á heimili fransks ríkisborgara sem hún handtók í Rotterdam í gær. Sá er einnig sagður hafa tengst fyrirhugaðri árás í Frakklandi. Maðurinn er sagður 32 ára og heita Anis B. Hann er talinn hafa farið til Sýrlands um tíma. Lögreglan leitaði einnig í annarri íbúð og handtók þar fjóra menn. Anis B. verður að öllum líkindum framseldur til Frakklands fljótlega.
En hryðjuverkanetið teygir einnig anga sína til Ítalíu. Ítalska lögreglan hefur handtekið mann sem er af alsírsku bergi brotinn í tengslum við rannsókn á framleiðslu falsaðra skilríkja sem árásarmennirnir í París og Brussel notuðu. Sá var yfirheyrður í gær en neitaði að svara öllum spurningum. Um er að ræða fertugan mann, Djamal Eddine Ouali að nafni.
Meðal þeirra sem notuðu fölsuð skilríki, sem talið er að Ouali hafi búið til, eru Najim Laachraoui og Salah Abdeslam, sem komst lífs af úr árásunum í París og Mohamed Belkaid, sem var skotinn til bana af lögreglunni í Brussel þann 15. mars.
Lögreglan hefur komist að því að Laachraoui og Belkaid voru í símasambandi við nokkra þá sem tóku þátt í árásinni í París kvöldið sem hún var framkvæmd.
Hópurinn sem stóð að árásunum í Brussel og París virðist því vera einn og hinn sami, að minnsta kosti tengjast mennirnir flestir með einhverjum hætti.