Komust inn í síma árásarmannsins

Margir hafa stutt Apple í baráttunni gegn kröfu FBI um …
Margir hafa stutt Apple í baráttunni gegn kröfu FBI um að fyrirtækið opni síma annars árásarmannsins. AFP

Bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefur náð að opna iPhone sem var í eigu manns sem gerði árás í San Bernardino í desember í fyrra. Bandaríska dómsmálaráðuneytið hafði farið í mál við Apple, og krafðist þess að fyrirtækið opnaði símann svo hægt væri að sækja gögn sem nota átti við rannsókn málsins. Aðstoð Apple reyndist þó ónauðsynleg við að brjótast inn í símann.

FBI segist þó hafa fengið aðstoð frá „þriðja aðila“ við að komast inn í símann. 

Banda­ríkjamaður­inn Syed Farook og kona hans, Tash­feen Malik frá Pak­ist­an myrtu 14 manns í skotárás á veislu­gesti í San Bern­ar­dino. 22 særðust. Parið féll svo í átökum við lögregluna. 

Apple neitaði að verða við kröfum FBI  um að kom­ast fram hjá ör­yggis­kerf­um iP­ho­ne-síma fyr­ir­tæk­is­ins. Fyrirtækið sagði að krafan stæðist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar og að ef fyrirtækið yrði að opna símann myndi það eyðileggja það traust sem allir iPhone notendur bera til Apple. Mörg tæknifyrirtæki, s.s. Google, Facebook, Microsoft og Yahoo stóðu með Apple í deilunni.

Nú er hins vegar ljóst að hægt er, með einhverjum ráðum, að brjótast inn í símana. Talið er líklegt að Apple muni reyna að koma í veg fyrir að slíkt verði hægt í framtíðinni, til að tryggja friðhelgi einkalífs notenda sinna.

Dómsmálaráðuneytið hefur því fellt niður kröfu á Apple um að opna símann.

Íbúar í San Bernardino minntust þeirra sem létu í árásinni.
Íbúar í San Bernardino minntust þeirra sem létu í árásinni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert