Byssumaður í haldi lögreglu

Maður, sem talinn er hafa dregið upp byssu í gestasal bandaríska þinghússins í Washington, er í haldi lögreglu. Bandarískir fjölmiðlar segja að hann hafi verið skotinn er hann reyndi að komast í gegnum málmleitarhlið í þinghúsinu. Hann var svo fluttur á sjúkrahús. Enn hefur ekki verið staðfest hvort einhver særðist er skoti var hleypt af. CNN og BBC segja að kona sem var gestur í húsinu hafi særst.

Byssumaðurinn er góðkunningi lögreglunnar. Í fyrra reyndi hann að ryðjast inn í þingsalinn og trufla þingfund.

Frétt mbl.is: Skothvellir í bandaríska þinghúsinu

Fjölmargir skólahópar heimsækja þinghúsið í kringum páskana. Þingið er í fríi í nokkra daga og því talið ólíklegt að margir þingmenn hafi verið staddir í húsinu.

Gestasalurinn er neðanjarðar, undir þinghúsinu. Er atvikið kom upp var þinghúsinu lokað og allir sem voru innandyra sem og utan við húsið var sagt að leita skjóls.

Þinghúsið hefur nú verið opnað aftur fyrir utan gestasalinn sem verður lokaður það sem eftir lifir dags. 

Lögreglan í Washington segir að engin frekari hætta hafi verið á ferðum og að atvikið hafi verið einangrað.

Trevor Kussman, sem var í heimsókn í þinghúsinu ásamt eiginkonu sinni og börnum, segir að hann hafi setið í kvikmyndasal í gestasalnum er tilkhynnt var að skotum hefði verið hleypt af. Hann segir að þá hafi einhverjir staðið upp og ætlað að fara út. Hann segir að upptaka hafi verið spiluð í hljóðkerfi hússins þar sem fram kom að „byssumaður“ væri í húsinu.

Kona sem stödd var í gestasalnum er atvikið átti sér stað segir að lögreglumaður hafi hrópað að sér og börnum sínum að leita skjóls. „Það var mikið hrópað og þ.eir sögðu okkur að leggjast niður,“ segir hún í samtali við Washington Post.

Vopnuð lögregla við þinghúsið eftir að atvikið kom upp í …
Vopnuð lögregla við þinghúsið eftir að atvikið kom upp í dag. Þinghúsinu var lokað um stund en hefur nú verið opnað aftur. AFP
Lögreglan fylgir hópi barna frá þinghúsinu í dag.
Lögreglan fylgir hópi barna frá þinghúsinu í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert