216 handteknir vegna árásar

Kristnir prestar minnast fórnarlambanna í gær.
Kristnir prestar minnast fórnarlambanna í gær. AFP

Rúmlega 5.000 manns hafa verið yfirheyrðir og leitað á vegna sjálfsmorðsárásarinnar í Lahore í Pakistan á sunnudaginn. Af þeim voru 216 handteknir. 73 létu lífið í árásinni sem var beint að kristnum í borginni. 

Pakistönsk yfirvöld greindu frá þessu í dag en í gær birtu hryðjuverkasamtökin Jamaat-ul-Ahrar, sem hafa lýst yfir ábyrgð á ódæðinu, skilaboð á Twitter þar sem hæðst var af Nawas Sharif, forsætisráðherra landsins og fullyrt var að stríð væri nú í forgarðinum hjá honum.

Fyrri frétt mbl.is: Hæða Sharif í twitter-skilaboðum

Árásinni á páskadag var beint að kristnum og að sögn Kashir Nawab, kristnum íbúa Lahore, finna þeir sérstaklega fyrir óöryggi í borginni. 200 milljónir manna búa í Pakistan og þar af er 1,6% þeirra kristnir.

Mörg hundruð særðust þegar að sprengjur sprungu nálægt barnaleiksvæði í almenningsgarðinum á sunnudaginn. Fjöldi látinna er kominn upp í 73 eftir að sextán ára drengur lést af áverkum sínum í dag.

„Hann hafði misst föður sinn og systur í árásinni. Enn er verið að hlúa að móður hans en hún er alvarlega særð,“ sagði læknir á sjúkrahúsinu.

Í sjónvarpsávarpi í gær hét Sharif hefndum og sagði að baráttunni væri ekki lokið fyrr en starfsemi hryðjuverkasamtaka væri tortímt.

Frétt Sky News. 

73 létu lífið í árásinni.
73 létu lífið í árásinni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert