Allir sluppu heilir á húfi

Maður, sem talið er að sé flugræninginn, gengur frá flugvélinni …
Maður, sem talið er að sé flugræninginn, gengur frá flugvélinni á flugvellinum á Kýpur í dag. AFP

Farþegar og áhöfn egypsku flugvélarinnar sem var rænt í morgun og lent á Kýpur slapp öll heil á húfi. Yfirvöld hafa handtekið flugræningjann eftir nokkurra klukkustunda umsátursástand á flugvellinum. Flugránið er ekki sagt tengjast hryðjuverkum heldur hafi persónulegar hvatir rekið ræningjann áfram.

Talsmaður kýpversku ríkisstjórnarinnar tilkynnti á Twitter að flugræninginn, sem er sagður egypskur ríkisborgari, hafi verið handtekinn án þess að gefa frekar upplýsingar um handtökuna. Fréttaritari AFP-fréttastofunnar á flugvellinum í Larnaca sá mann koma frá flugvélinni, ganga yfir flugbrautina og rétta upp hendur fyrir tveimur lögreglumönnum úr hryðjuverkasérsveit. Þeir hafi lagt manninn á jörðina og leitað á honum í um tvær mínútur áður en þeir leiddu hann í burtu. Ræninginn hafði haldið því fram að hann væri vopnaður sprengjubelti.

„Farþegarnir eru öruggir og áhöfnin er örugg,“ sagði Sherif Fathy, flugmálaráðherra Egyptalands, skömmu eftir tilkynningu kýpverskra stjórnvalda. Um borð voru 55 farþegar auk áhafnarinnar.

Alexandros Zenon, utanríkisráðherra Kýpur, segir flugránið ekki tengjast hryðjuverkum heldur snúist það um gjörðir einstaklings sem sé óstöðugur á geði. Flugræninginn er sagður hafa krafist þess að fá að hitta fyrrverandi ástkonu og barnsmóður sína sem býr á Kýpur.

Flugvélin er af gerðinni Airbus A-320 og er í eigu EgyptAir. Henni var lent um kl. 8:50 að staðartíma á Kýpur eftir að flugræninginn hafði samband við flugturn þar. Hún hafði verið á leiðinni frá Alexandríu til Kaíró þegar maðurinn hótaði að sprengja vélina upp með sprengjubeltinu.

Ræninginn leyfði flestum farþeganna að yfirgefa vélina eftir lendinguna á Kýpur en hann hélt nokkrum farþeganna og áhöfninni eftir þar til skömmu áður en hann var handtekinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert