Flugræningi tók völdin í farþegaþotu EgyptAir og neyddi hana til lendingar í Kýpur í morgun. Nær öllum farþegunum var fljótlega leyft að fara og yfirvöld segja að tilvikið sé ekki neins konar hryðjuverk.
Frétt mbl.is: Egypskri farþegaþotu rænt
Enda virðist í ljós leitt að maðurinn sé í leit að fyrrverandi ástkonu sinni sem býr á eyjunni og hefur hann krafist fundar við hana.
BBC segir frá því að búið sé að handtaka manninn og vitnar í utanríkisráðuneyti Kýpur. Á Twitter síðu ráðuneytisins kemur jafnframt fram að maðurinn heiti Seif Eldin Mustafa.
Farþegaþotan lenti á flugvellinum í hafnarborginni Larnaca klukkan 8.50 í morgun, eða klukkan 5.50 að íslenskum tíma. Flugræninginn hafði þá haft samband við flugstjórnina tuttugu mínútum áður til að krefjast þess að fá að lenda.
Flugmálayfirvöld Egyptalands segja að maðurinn hafi hótað að sprengja sprengjubelti í þotunni, sem er af gerðinni Airbus A-320 og var á leið frá Miðjarðarhafsborginni Alexandríu til höfuðborgarinnar Kaíró.
Flestum farþeganna var leyft að ganga frá borði stuttu eftir að vélin lenti. Flugmálaráðherra Egyptalands, Sherif Fathy, sagði á blaðamannafundi fyrir skömmu að flugstjórinn, aðstoðarflugmaðurinn, flugfreyja og öryggisvörður séu enn um borð ásamt flugræningjanum og þremur farþegum.
Vitað er að þegar þotan lagði af stað voru um borð átta Bandaríkjamenn, fjórir Hollendingar, fjórir Bretar og Frakki, samkvæmt upplýsingum frá flugmálayfirvöldum. Fathy segir að 55 farþegar hafi verið um borð og að flugræninginn hafi krafist þess að lenda annað hvort í Tyrklandi eða á Kýpur.
„Hann hafði enga byssu eða neitt. Við vitum ekki enn hvort sprengjubelti hans sé alvöru en öryggis farþeganna vegna þá lítum við á það sem svo.“
Forseti Kýpur, Nicos Anastasiades, sagði blaðamönnum að maðurinn virtist eiga sér persónulegar ástæður. „Flugránið er ekki tengt hryðjuverkum,“ sagði Anastasiades á blaðamannafundi með forseta Evrópuþingsins, Martin Schultz, sem er þar í heimsókn.
Spurður um þær fregnir að flugræninginn hafi krafist þess að sjá kýpverska konu, sagði Anastasiades: „Það er alltaf kona.“
Sjónvarpsstöðin Sigma á eyjunni segir konuna hafa verið flutta á flugvöllinn úr heimaþorpi sínu Oroklini, ásamt ungu barni. Ríkisútvarp Kýpur hafði áður sagt manninn krefjast hælis og að hann hefði beðið um túlk.
Sérstakt neyðarteymi hefur verið sent á flugvöllinn, sem er meginlendingarstaður þeirra ferðamanna sem eiga leið um eyjuna. Þotunni hefur verið lagt á flugbrautinni í nokkurri fjarlægð frá nýrri flugstöðvarbyggingu en aðeins 200 metrum frá strönd þar sem tugir erlendra ferðamanna eru staddir.
Öllum flugleiðum til vallarins hefur verið beint annað, einkum á flugvöllinn í Paphos á vesturhluta eyjarinnar.
Flugvöllurinn í Larnaca hefur oft verið vettvangur gíslataka. Þónokkrum rændum vélum hefur verið beint þangað undanfarna áratugi.
Í ágúst árið 1996 var Airbus-þotu Sudan Airways rænt af sjö Írökum á flugi á milli Khartoum og Amman þegar 199 manns voru um borð. Eftir áningu í Larnaca flaug vélin áfram á Stansted flugvöllinn í London, þar sem ræningjarnir gáfu sig fram.
Árið 1988 var flugvél Kuwait Airways rænt þar sem hún var á leið frá Bangkok til Kúveit. Var henni fyrst beint til borgarinnar Mashhad í Íran og síðar til Larnaca, þar sem ræningjarnir drápu tvo kúveitska farþega og hentu líkum þeirra á flugbrautina.
Í febrúar árið 1978 ruddist egypsk sérsveit inn í DC-8 flugvél Cyprus Airways sem þá stóð á flugvellinum í Larnaca með fimmtán gísla innanborðs. 15 egypskir hermenn létust og 15 særðust í skotbardaga við kýpverskar hersveitir. Allir gíslarnir voru frelsaðir og ræningjarnir handteknir.