Egypski ríkisborgarinn Seif Eldin Mustafa er nú í haldi lögreglu eftir að hafa framið flugrán í egypskri farþegaþotu. Mustafa neyddi flugstjóra flugvélar EgyptAir til þess að beina vélinni til Kýpur og lenti hún þar í morgun. Mustafa var með sprengjubelti um sig miðjan sem reyndist síðan vera með gervisprengjum.
Eftir að vélinni var lent hleypti Mustafa flestum farþegum þotunnar út en hélt eftir sjö farþegum og áhöfninni. Eftir átta klukkustunda gíslatöku gekk Mustafa út úr vélinni með hendur á lofti. Innan klukkustundar var það staðfest að sprengjubeltið væri ekki virkt.
Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins í Kýpur kom fram að flugránið hafi ekki verið hryðjuverk heldur um gjörðir einstaklings með andleg veikindi.
Því var haldið fram í morgun að Mustafa hafi krafist þess að hitta fyrrverandi eiginkonu sína og barnsmóður sem býr á Kýpur en þau eiga fjögur börn saman. Vitni sögðu í samtali við ríkissjónvarp Kýpur að Mustafa hafi kastað bréfi út á flugbrautina og krafist þess að því yrði komið til fyrrverandi konu hans.
Ríkissjónvarpið sagði þó fyrr í dag að Mustafa hafi krafist þess að kvenkyns föngum í Egyptalandi yrði sleppt. Þá hefur forsætisráðherra Egyptalands, Sherif Ismail, haldið því fram að maðurinn hafi beðið um að hitta fulltrúa Evrópusambandsins.
Mustafa er sagður vera nálægt sextugu og reka matvinnslufyrirtæki.
Innanríkisráðuneyti Egyptalands hefur nú birt upptöku eftirlitsmyndavélar sem sýnir Mustafa fara í gegnum vopnaleit á flugvellinum í Alexandríu, þar sem ferð farþegaþotu EgyptAir hófst.
Þar má sjá öryggisvörð leita á manninum sem virðist ekki vera í sprengjuvesti sem bendir til þess að vestið hafi verið geymt í tösku hans.
Málið hefur vakið umræðu um flugvallaröryggi í Egyptalandi en aðeins eru fimm mánuðir síðan að rússnesk farþegaþota var sprengd upp yfir Sinaí skaga í Egyptalandi. 224 létu lífið. Rússar halda því fram að sprengju hafi verið komið fyrir í flugvélinni af flugvallarstarfsmönnum.