FBI skrefi á undan Apple

Sérfræðingar tæknirisans virðast ekki hafa hugmynd um hvað hafi klikkað …
Sérfræðingar tæknirisans virðast ekki hafa hugmynd um hvað hafi klikkað í öryggisbúnaði iPhone. AFP

Margt er á huldu um það hvernig leyniþjónustu Bandaríkjanna tókst að brjóta sér leið inn í iPhone símann sem var í eigu Syed Farook sem lést ásamt konu sinni í skotbardaga við lögreglu eftir að hjónin myrtu 14 manns í San Bernardino á síðasta ári.

Leyniþjónustan greindi frá því á mánudag að stofnuninni hafi tekist að brjótast inn í iPhone-símann, en fram að því hafði því verið haldið fram að ómögulegt væri að nálgast efni sem geymt var í símanum án hjálpar Apple. Krafði dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna Apple um að opna símann en Apple neitaði að verða við kröfum FBI um að  koma fram hjá öryggiskerfum.

Á vef Fox News er greint frá því að sérfræðingar Apple hafi litla hugmynd um það hvernig FBI tókst að brjóta sér leið inn í símann og þar af leiðandi hvernig styrkja megi öryggisþætti iPhone.

Tók 26 mínútur að brjótast inn í símann

Hátt settur embættismaður, sem tjáði sig undir nafnleynd við The Associated Press, sagði að FBI hafi tekist að koma í veg fyrir að sá hluti öryggiskerfis símanna sem eyðir efni símans ef rangt lykilorð er stimplað tíu sinnum í röð hafi farið í gang. Þannig gat stofnunin prófað ólíkar samsetningar lykilorða sem á ensku er jafnan kallað „brute-force attack“ þar til rétti kóðinn fannst og síminn opnaðist.

Þó liggur ekki fyrir hvernig FBI náði að koma í veg fyrir að annar hluti öryggiskerfisins, sem eykur við tímann sem þarf að bíða eftir að stimpla megi inn lykilorð eftir ranga tilraun, færi í gang.

James Comey, forstjóri FBI, sagði að eftir að stofnuninni hafði tekist að fjarlægja þessa öryggisþætti hafi FBI getað brotist inn í læsta símann á 26 mínútum. FBI hefur nú efni símans til rannsóknar en ekki er víst hvort að efnið komi til með að nýtast við rannsókn málsins.

Tim Cook, forstjóri Apple, hefur gagnrýnt kröfu dómsmálaráðuneytisins um að Apple ætti að opna símann fyrir yfirvöldum. Hann heitir því að öryggi Apple-raftækja verði nú styrkt frekar.

Tim Cook, forstjóri Apple.
Tim Cook, forstjóri Apple. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert