Nýgift hjón létust í árásinni

Naveed Ashraf og eiginkona hans, Shawana.
Naveed Ashraf og eiginkona hans, Shawana.

Meðal þeirra sem létust í árásinni í skemmtigarðinum í Lahore í Pakistan var ungt par sem hafði gift sig nokkrum vikum fyrr. Þau höfðu farið í garðinn til að njóta dagsins en bæði eru þau múslímar. Árásinni var sagt beint að kristnum.

Naveed Ashraf og eiginkona hans, Shawana, fóru með ættingjum í garðinn á páskadag. Þetta var í fyrsta sinn sem Shawana heimsótti borgina. Þau létust bæði í sprengjuárásinni. Þau fengu sprengjubrot í háls og höfuð og blæddi út. Allt var í blóði, föt þeirra, hár og andlit.

Þau voru jörðuð strax á mánudeginum, líkt og venja er hjá múslímum. „Allir sáu að Shawana var eins og engill,“ segir móðir Naveed við CNN um kynni parsins. 

Aðeins fáum augnablikum áður en árásin var gerð var tekið upp myndskeið af Ashraf-fjölskyldunni í garðinum. Á því sjást þau sitja og fá sér að borða. Svo kvað við sprenging.

Í kjölfarið leitaði fjölskyldan að parinu í garðinum. Þau fundu þau, blóðug og slösuð, á sjúkrahúsi í Lahore síðar um daginn. Á leiðinni um garðinn og á spítalann aðstoðaði fjölskyldan aðra í neyð en 72 létust og tæplega 400 særðust í árásinni.
„Ég vildi að ég hefði dáið í þeirra stað,“ segir móðir Naveeds. „Ég vildi að ég gæti gefið börnunum mínum líf mitt.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert