Egypski maðurinn sem rændi flugvél EgyptAir í gær og neyddi flugstjórann til að lenda á Kýpur hefur viðurkennt brot sitt en segir örvæntingu hafa rekið sig áfram, að sögn saksóknara á Kýpur. Hann segir egypsk yfirvöld hafa bannað sér að hitta fjölskyldu sína í nær aldarfjórðung.
Dómstóll hefur úrskurðað hinn 59 ára gamla Seif Eldin Mustafa í átta daga gæsluvarðhald en hann kom fyrir dómara í morgun. Ákæruvaldið bar þar upp sakir á hann sem varða meðal annars brot á hryðjuverkalögum og flugrán. Hann gæti átt lífstíðarfangelsi yfir höfði sér verði hann ákærður og fundinn sekur.
„Þegar einhver hefur ekki séð fjölskyldu sína í 24 ár og vill sjá konuna sína og börn og egypska ríkisstjórnin leyfir honum það ekki hvað á hann þá að gera?“ sagði Mustafa við yfirvöld að því er kemur fram í yfirlýsingu saksóknara.
Fjölmiðlar hafa greint frá því að fyrrverandi eiginkona Mustafa búi á Kýpur og að þau hafi átt fimm börn saman. Sjálfur hafi Mustafa búið á Kýpur til ársins 1994. Þegar hann fékk flugvélinni lent á flugvellinum í Larnaca á Kýpur hafi Mustafa krafist þess að fá að tala við konuna. New York Times segir konuna ekki vilja tala við hann.
Haft er eftir öryggissveitum í Egyptalandi að Mustafa hafi setið í fangelsi fyrir skjalafals og fjársvik á meðan uppreisninni gegn Hosni Mubarak, fyrrverandi forseta landsins, stóð árið 2011. Nágrannar hans hafi heyrt hann barma sér undan því að vera fastur í Egyptalandi þar sem hann bjó í fátæku hverfi sem strokufangi.
Kýpversku saksóknararnir sögðu við fyrirtöku málsins í morgun að Mustafa hafi staðið upp úr sæti sínu um stundarfjórðungi eftir flugtakið í Alexandríu og sýnt áhöfninni hvítt belti með vírum sem hann sagði tengjast fjarstýringu. Afhenti hann áhöfninni miða til flugmannanna þar sem hann fullyrti að ef vélinni yrði lent í Egyptalandi myndi hann umsvifalaust sprengja hana í loft upp.
„Sprengjubeltið“ reyndi að lokum ekki vera raunverulegt. Kýpversk yfirvöld hafa sagt Mustafa „ástsjúkan“ en óstöðugan á geði.