Vélarbilun varð flugrán

Seif Mostafa var í dag úrskurðaður í átta daga gæsluvarðhald.
Seif Mostafa var í dag úrskurðaður í átta daga gæsluvarðhald. AFP

Þegar að farþegarnir sáu á korti að farþegaþotinu var flogið yfir sjó vissu þau að eitthvað væri að. „Við gerðum okkur grein fyrir því að við værum ekki á leið til Kaíró,“ sagði Noha Saleh í samtali við NBC en hún var um borð egypsku farþegaþotunnar sem var rænt í gær af flugræningjanum Seif Eldin Mustafa og beint til Kýpur.

Vélin átti að fara frá Alexandríu til Kaíró og ætlaði Saleh þar að ná flugi til New York þar sem hún býr.

Flugáhafnarmeðlimir sögðu farþegum að vegna vélarbilunar þyrfti að lenda vélinni í Kýpur. Saleh reyndi að halda ró sinni þar til áhöfnin byrjaði að safna vegabréfum farþeganna. Þá fóru farþegar að krefjast svara og viðurkenndu áhafnarmeðlimirnir að um hættuástand væri að ræða.

Að sögn Saleh var áhöfnin allan tíman mjög fagleg og róleg. „Þau  útskýrðu fyrir okkur að okkur hefði verið rænt,“ sagði Saleh.

Stóð aftast í vélinni

Flugræninginn var fyrrnefndur Mustafa en hann sagðist vera með sprengjubelti um sig miðjan sem reyndist svo ekki vera alvöru. „Fólk varð örvæntingarfullt,“ sagði Saleh en bætti við að áhöfnin hafi reynt að aðskilja flugræningjann og farþegana.

Hún segir það hafa verið mikið áfall að gera sér grein fyrir því að vélinni hafði verið rænt. „Ég var í áfalli í svona fimmtán mínútur og sagði endurtekið „Er þér alvara? Ertu að segja satt?“ útskýrði Saleh.

Mustafa hélt sig í enda vélarinnar þar sem hann fylgdist með áhöfninni og hvort að verið væri að fylgja fyrirmælum hans. Að sögn Saleh var einn kvenkyns áhafnarmeðlimur hálfgerður milliliður á milli Mustafa og áhafnarinnar. „Hann átti í engum samskiptum við okkur,“ sagði Saleh.

Óskaði eftir hæli

Þegar að flugvélinni var lent í Kýpur var öllum Egyptum sleppt en aðrir og áhöfnin þurftu að vera eftir. Um borð voru átta Bandaríkjamenn, fjórir Bretar, fjórir Hollendingar, tveir Belgar, Frakki, Ítali og Sýrlendingur.

Lögregla var í stöðugu samband við Mustafa til þess að fá hann til að sleppa gíslunum. Bað hann um að fá að tala við fyrrverandi eiginkonu sína sem er frá Kýpur.

Gíslarnir þurftu að vera í flugvélinni með Mustafa í um fimm klukkustundir á meðan samið var við hann. Hún segir það hafa verið erfitt að hugsa til þeirra í allan þennan tíma.

Farþegar þotu EgyptAir á flugvellinum í Kýpur.
Farþegar þotu EgyptAir á flugvellinum í Kýpur. AFP

Á þessum fimm klukkustundum fór Mustafa frá því að vilja hitta fyrrverandi konu sína yfir í að óska eftir hæli í Kýpur og fá að ræða við fulltrúa Evrópusambandsins.

„Það virðist sem hann sé með óstöðugan persónuleika,“ sagði talsmaður yfirvalda í Kýpur, Nikos Christodoulides í samtali við NBC.

Gíslarnir komust út úr flugvélinni einn af öðrum og á endanum hafði Mustafa ekki um annað að velja en að gefast upp.

Mustafa hefur ekki verið formlega ákærður en var í dag úrskurðaður í átta daga gæsluvarðhald.

Þó svo að í ljós hafi komið að sprengjubelti Mustafa hafi ekki verið ekta sagði Saleh upplifunina hafa verið hræðilega en lagði áherslu á að vera þakklát. „Við misstum ekki einn farþega, allir eru lifandi,“ sagði Saleh.

Fyrri frétt mbl.is: Örvænting rak flugræningjann áfram

Saleh ræðir við blaðamenn.
Saleh ræðir við blaðamenn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert