Vísindamenn telja sig hafa fundið sannanir með aðstoð gervihnatta fyrir annarri byggð norrænna manna í Norður-Ameríku, sunnar en áður hefur fundist.
Staðurinn er í Kanada og fannst hann síðasta sumar eftir að innrauðar myndavélar í mörg hundruð kílómetra fjarlægð frá jörðu sýndu merki um járnvinnslu manna. Talið er að ummerkin nái aftur til áranna 800 til 1300.
Nánar tiltekið er staðurinn á suðvesturströnd Nýfundnalands, tæpum 500 kílómetrum suður af L´Anse aux Meadows, nyrsta odda Nýfundnalands, en þar fundust fyrstu og einu staðfestu norrænu minjarnar í Norður-Ameríku hingað til árið 1960.
Síðan þá hafa fornleifafræðingar leitað án árangurs að vísbendingum um aðrar byggðir víkinga í Ameríku sem hefðu verið til um 500 árum áður en Kólumbus steig fæti á heimsálfunni.
Á síðasta ári ákvað „geim-fornleifafræðingurinn“ Sarah H. Parcak, í samstarfi við kanadíska sérfræðinga, að skoða strandlengjur, allt frá Baffin-eyjum, vestur af Grænlandi, til Masaschusetts í Boston. Hún fann hundruð mögulegra „heitra svæða“ sem háskerpuljósmyndir úr geimnum náðu að afmarka niður í nokkrar og síðar eina mögulega staðsetningu á byggð norrænna manna, að því er kom fram á vef NY Times.
Tveggja klukkustunda heimildamynd um verkefnið verður sýnd á bandarísku sjónvarpsstöðinni PBS í næstu viku. Hún verður einnig sýnd hjá BBC í Bretlandi.
Hægt verður að sjá hann á netinu á þessari slóð.
„Staðurinn öskrar á mann: „Grafðu mig upp!,“ sagði Parcak, sem er prófessor í fornleifafræði við Alabama-háskóla í Birmingham.
Á síðasta ári hlaut hún eina milljón dollara í verðlaun frá TED fyrir vinnu sína við fornleifar í Egyptalandi með aðstoð gervihnattamynda.
„Ef þetta er satt þá er þetta stórkostlegt,“ sagði William Fitzhugh, stjórnandi á fornleifadeild Smithsonian-safnsins í Washington. „Þetta kæmi ekki á óvart,“ bætti hann við en tók fram að hann þyrfti fyrst að sjá öll gögn málsins.