Hillsborough-slysið lagt í kviðdóm

Níutíu og sex stuðningsmenn Liverpool létust í hinu hræðilega Hillsborough-slysi. …
Níutíu og sex stuðningsmenn Liverpool létust í hinu hræðilega Hillsborough-slysi. Stuðningsmenn liðsins krefjast enn réttlætis og að sannleikurinn um dauða þeirra verði leiddur í ljós. AFP

Lengstu réttarhöldum breskrar réttarfarssögu lauk í dag þegar dánardómstjóri fól kviðdómi að kveða upp úr um hvort að lát 96 stuðningsmanna Liverpool í Hillsborough-slysinu árinu 1989 hafi borið að með saknæmum hætti. Meira en tvö ár eru liðin frá því að réttarhöldin hófust.

Stuðningsmennirnir fórust í miklum troðningi sem myndaðist í Leppings Lane-stúku Hillsborough-vallarins í Sheffield fyrir undanúrslitaleik Liverpool og Nottingham Forest í ensku bikarkeppninni 15. apríl árið 1989. Yngsta fórnarlambið var tíu ára gamalt.

Ný réttarrannsókn í málinu hófst 1. apríl árið 2014 eftir að hæstiréttur Bretlands felldi árið 2012 úr gildi upphaflegan úrskurð dánardómstjóra um að stuðningsmennirnir hefðu látist af slysförum. Það tók alls 276 daga að fara yfir sönnunargögn í málinu auk þess sem tafir hafa orðið á málflutningnum og hafa réttarhöldin því verið þau langlengstu sem sögur fara af í breskri dómstólasögu.

Svara hvort lögreglan sýndi af sér glæpsamlega vanrækslu

Kviðdómurinn þarf nú að taka afstöðu til fjórtán spurninga sem dánardómstjórinn lagði fyrir hann. Þeirra á meðal eru spurningar um hvort að lögreglan í Suður-Jórvíkurskíri hafi gert mistök við skipulagningu fyrir leikinn, stuðlað að hættulegum aðstæðum eða hvort hún hafi gert mistök í að stýra mannfjöldanum fyrir utan stúkuna.

Samhljóða niðurstaða þarf að vera á meðal allra kviðdómendanna tíu til að yfirlögregluþjónninn David Duckenfield, sem stjórnaði störfum lögreglu við leikinn, verði talinn ábyrgur fyrir manndrápi á stuðningsmönnunum vegna meiriháttar vanrækslu.

Í leiðbeiningum dómstjórans til kviðdómendanna sagði hann að til þess að finna hann sekan um meiriháttar vanrækslu þyrftu þeir að vera sannfærðir um að brot Duckenfield á skyldum sínum við öryggi stuðningsmannanna hafi verið svo alvarlegt að það teldist glæpsamlegt.

Mikil örtröð myndaðist fyrir utan stúku Liverpool-stuðningsmannanna fyrir leikinn. Duckenfield gaf þá skipun um að opna útgönguhlið en það varð til þess að stuðningsmenn streymdu inn í stúkuna sem var þegar yfirfull. Við það varð gríðarlegur troðningur sem varð stuðningsmönnunum 96 að bana.

Viðurkenndi að hafa logið um mistök sín

Ein spurninganna sem lögð er fyrir kviðdóminn er sérlega umdeild að hún snýst um hvort að hegðun stuðningsmannanna hafi valdið eða átt þátt í að hættulegar atstæður sköpuðust. Það er ástæðan sem lögreglan í Suður-Jórvíkurskíri beitti fyrir sig í kjölfar slyssins. Ölvaður hópur knattspyrnubullna sem ekki hafi verið með miða á leikinn hafi þvingað sér leið inn á völlinn og valdið troðningnum.

Síðar koma á daginn að yfirmenn lögreglunnar hagræddu skýrslum lögreglumanna um það sem gerðist þennan dag til þess að beina sökinni að áhorfendum frekar en lögreglunni.

Duckenfield viðurkenndi sjálfur við réttarhöldin nú að hann hafi logið um mistök sín við fjölda rannsókna sem hafa farið fram á slysinu í gegnum tíðina og bað fjölskyldur fórnarlambanna afsökunar.

Frétt The Guardian af Hillsborough-réttarhöldunum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert