Ríkissaksóknari í Flórída ætlar ekki að ákæra Corey Lewandowski, kosningastjóra Donalds Trump, fyrir líkamsárás samkvæmt heimildum CNN. Fréttakona sakar Lewandowski um að hafa rifið í sig þegar hún reyndi að spyrja Trump spurninga í mars.
Heimildir herma að fréttakonan Michelle Fields muni engu að síður kæra Lewandowski fyrir ærumeiðingar en hann hefur neitað ásökuninni og reynt að rýra trúverðugleika Fields. Trump hefur staðið með kosningastjóra sínum og sagði í fyrstu að hann teldi að ásökunin væri uppspuni Fields. Engu að síður eru nokkrar myndbandsupptökur til sem sýna Lewandowski kippa í handlegg fréttakonunnar.
Fields var starfsmaður íhaldssama vefmiðilsins Breitbart sem hefur stutt framboð Trump. Hún sagði upp eftir atvikið með kosningastjóranum ásamt fleiri starfsmönnum Breitbart vegna viðbragða forsvarsmanna miðilsins við því.