Breska tímaritið Spectator hefur heitið verðlaunum þeim höfundi sem tekst best upp við að móðga tyrkneska forsetann, Recep Tayyip Erdogan með háðsádeiluljóði. Stutt er síðan Erdogan höfðaði mál á hendur þýskum grínista vegna hæðnisádeilu á hendur sér.
Verðlaunin nema 1.000 pundum er það einn af lesendum Spectator sem gefur verðlaunaféð.
Böehrmann las háðsádeiluljóð um Erdogan á þýsku sjónvarpsstöðinni ZDF í lok síðasta mánaðar. Sagði hann þar Erdogan hafa haft kynmök við geitur og kindur, horft á barnaklám og beitt konur ofbeldi.
Böehmermann nýtur nú lögregluverndar og Angela Merkel Þýskalandskanslari hefur heimilað þýskum saksóknurum að höfða mál á hendur Böehrmann fyrir móðgun við erlendan þjóðhöfðingja.
Í yfirlýsingu sem Angela Merkel sendi frá sér sagði hún að með því að heimila saksóknurum sé hún ekki að taka afstöðu til málsins, heldur sé það í höndum saksóknara og dómstóla.
Douglas Murray, pistlahöfundur hjá Spectator, sagði er hann tilkynnti um keppnina að „sú staðreynd að það sé yfirhöfuð hægt að hugleiða réttarhöld sýnir að Þýskaland er orðið lítið meira en eitt af héruðum Erdogans.“
„Ég er Breti og borin frjáls …. Og til að heiðra þá staðreynd þá er ég búin að eyða helginni í að semja dónalegar limrur um Erdogan,“ heldur Murray áfram.
„Og mig langar hér með til að bjóða öllum lesendum að taka þátt með mér í stórri limrukeppni um Erdogan."
Frá því að Erdogan tók við embætti forseta Tyrklands 2014 hafa hátt í 2.000 kærur verið lagðar fram vegna móðgunar við forsetann. Þá hafa málaferlin gegn Böehmermann vakið upp umræðu um málfrelsi í Þýskalandi.