2,2 milljarðar búa á hættusvæðum zika-veirunnar

Moskítófluga af tegundinni Aedes Aegypti.
Moskítófluga af tegundinni Aedes Aegypti. AFP

Meira en tveir milljarðar manna búa á þeim svæðum þar sem óttast er að zika-veiran geti breiðst út. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem birt er í eLife sem vísindamenn við Oxford-háskóla unnu m.a. að.

Veiran smitast með moskítóflugum. Á þessu ári hefur ítrekað verið varað við smitum því staðfest hefur verið að hún geti m.a. valdið alvarlegum fæðingargöllum.

Svæðið þar sem veiran getur breiðst út er mun stærra en áður var talið. Í fyrstu var aðeins kortlagt hvar moskítóflugan af tegundinni Aedes aegypti getur dafnað. Nú er ljóst að málið er mun flóknara og að veiran gæti breiðst út um stærra svæði.

Við kortlagninguna var stuðst við mikið magn gagna um zika-veiruna. Var m.a. skoðað hvar hún getur mögulega þrifist og þau gögn notuð til að spá fyrir um hvar hún gæti breiðst út.

Í ljós kom að um 2,2 milljarðar manna búa á „hættusvæðum.“

Í frétt BBC um rannsóknina kemur fram að talið er að sýkingar af völdum zika-veirunnar geti leitt til þess að þúsundir barna fæðist með fæðingargalla sem m.a. felur í sér óþroskaðan heila. 

Meðal svæða sem talin eru í hættu eru Flórída og Texas í Bandaríkjunum. Aðstæður fyrir zika-veiruna gætu skapast þar þegar hitinn hækkar yfir sumartímann. „Það þarf að vera nógu hlýtt fyrir zika-veiruna til að fjölga sér inni í moskító-flugunni og það þarf að vera nógu margt fólk til að bera smitið á milli,“ hefur BBC eftir Oliver Brady, einum höfunda rannsóknarinnar.

Þá leiddi rannsóknin í ljós að á stórum svæðum í Afríku og Asíu eru aðstæður fyrir veiruna að þrífast. 

Hins vegar hefur ekki verið skýrt af hverju veiran hefur ekki þegar breiðst út á þessum svæðum. Hingað til hafa smitin verið nánast einangruð við lönd í Suður-Ameríku. Skýringin gæti verið sú að mögulegar sýkingar af völdum veirunnar hafi ekki verið rétt greindar. 

Samkvæmt þessari rannsókn er talið að Evrópa sleppi við veiruna en það kann að breytast því enn á eftir að rannsaka til hlýtar í hvaða tegundum moskító-fluga veiran getur fjölgað sér.

Zika-veiran gæti breiðst út á þeim svæðum sem eru rauðlituð …
Zika-veiran gæti breiðst út á þeim svæðum sem eru rauðlituð á myndinni. Skjáskot/BBC
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert