Lögregla bar sökina á Hillsborough

Fólk beið í röðum eftir að komast inn í dómsal …
Fólk beið í röðum eftir að komast inn í dómsal þar sem réttarrannsóknin á Hillsborough-slysinu hefur farið fram. AFP

Kviðdómendur hafa komist að þeirri niðurstöðu að dauða 96 stuðningsmanna Liverpool í Hillsborough-slysinu árið 1989 hafi borið að með saknæmum hætti. Lögreglan hafi sýnt af sér grófa vanrækslu sem leiddi til dauða fólksins. Mikil fagnaðarlæti brutust út í dómsalnum þegar niðurstaðan var ljós.

Dánardómstjóri hóf nýja réttarrannsókn á Hillsborough-slysinu árið 2014 eftir að fyrri niðurstaða um að stuðningsmennirnir hafi farist af slysförum var felld úr gildi. Aðstandendur fórnarlambanna hafa alla tíð barist fyrir því viðurkennt væri að gjörðir eða aðgerðaleysi lögreglu hafi verið ástæða þess að stuðningsmennirnir 96 létust í miklum troðningi á Hillsborough-vellinum í Sheffield þar sem Liverpool og Nottingham Forest öttu kappi í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar 15. apríl árið 1989.

Stundin var því tilfinningaþrungin þegar kviðdómendur lýstu afstöðu sinni til fjórtán spurninga sem dánardómstjórinn lagði fyrir þá. Fyrir utan að telja lögregluna seka um vanrækslu sem leiddi til dauða fólksins sögðu kviðdómendurnir að ekki hafi verið hægt að kenna hátterni stuðningsmannanna sjálfra um hvernig fór. Í kjölfar slyssins reyndi lögreglan að varpa sök á stuðningsmennina og átu sumir fjölmiðlar eins og The Sun það upp á forsíðum sínum.

Margir ættingjar þeirra látnu hafa setið nærri því hvern einasta dag rannsóknarinnar sem hófst 1. apríl árið 2014. Hún hefur staðið yfir í tvö ár og er sú lang lengsta í breskri réttarfarssögu, að því er kemur fram í frétt The Guardian. Niðurstaðan er talin fullnaðarsigur aðstandendanna eftir rúma aldafjórðungs baráttu fyrir réttlæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert