Enginn lifði þyrluslysið af

Björgunarmenn að störfum á vettvangi í dag.
Björgunarmenn að störfum á vettvangi í dag. AFP

Björgunaraðgerðum lögreglu vegna þyrlunnar sem hrapaði við Turey í Hordalandi í Noregi í dag, er lokið. Þrettán voru um borð í þyrlunni, og eru þeir allir látnir.

Þetta  kom fram á blaðamannafundi norsku lögreglunnar sem lauk fyrir skömmu.

Þyrl­an var á leið með starfs­menn frá olíubor­pallinum Gullfaxa B í Norður­sjó er slysið varð. Í umfjöllun NRK kemur fram að tveir hinna látnu voru flugmenn þyrlunnar. Hinir ellefu voru starfsmenn nokkurra mismunandi fyrirtækja en allir við vinnu fyrir Statoil. Ellefu hinna látnu voru norskir ríkisborgarar en einn var breskur og annar ítalskur.

Hrapaði úr 640 metra hæð

Sjón­ar­vott­ar segja að spaðar þyrlunn­ar hafi losnað af og hún svo hrapað beint á lítinn hólma í hafinu þar sem hún sprakk með mikl­um hvelli. Samkvæmt Flighradar.com var hún í 640 metra hæð þegar hún byrjaði að hrapa. Þyrluspaðarnir og flak þyrlunnar fundust í sitt hvoru lagi og voru um 200 til 300 metrar á milli. Flakið fannst í hafinu á 6 til sjö metra dýpi en spaðarnir fundust á landi. Lík 11 hinna látnu fundust á landi en ekki hafa verið gefnar út upplýsingar um þau síðustu tvö.

Þyrlan var af gerðinni EC225 Super Puma. NRK segir þyrlur af sömu tegund hafa komið við sögu í fimm slysum á síðustu fjórum árum í Bretlandi. Það alvarlegasta hafi átt sér stað árið 2009, þar sem 16 létust þegar eldri gerð vélarinnar sem hrapaði í dag, hrapaði í hafið utan fyrir Péturshöfða í Skotlandi. Allar þyrlur af sömu tegund í Noregi hafa verið kyrrsettar um sinn vegna málsins en framleiðandi þeirra, Airbus Helicopters, hefur gefið það út að fyrirtækið muni vinna með yfirvöldum að því að komast að niðurstöðu um orsakir slyssins. Forstjóri CHC þyrluþjónustunnar sem gerði út þyrluni sagði í samtali við NRK of snemmt að velta fyrir sér orsökum slyssins en að innri rannsóknarteymi hefði verið sett á laggirnar vegna þess.

Þurfti að banna drónaflug

Statoil lagði niður framleiðslu á Gullfaxa B í kjölfar slyssins og kyrrsetti jafnframt allar þyrlur fyrirtækisins. Sagði talsmaður fyrirtækisins það gert til þess að starfsmenn um borð á olíuborpallinum fá rými til að vinna úr sorginni.

Fjöldi fólks varð vitni að slysinu og þurfti lögregla að gefa út sérstaka tilkynningu þar sem fólk var beðið um að fljúga ekki drónum yfir svæðinu. Í kvöld mun fara fram opinn fundur á Tureyju þar sem fólk mun geta rætt við lögreglu, djákna, sálfræðing, sem og fulltrúa slökkviliðs og heilsugæslu auk þess sem sett hefur verið upp sérstakt neyðarnúmer með það fyrir augum að veita fólki áfallameðferð.

Bæði Erna Solberg, forsætisráðherra og Haraldur Noregskonungur hafa gefið út samúðaróskir. Konungshjónin hafa aflýst fyrirhugaðri ferð sinni til Svíþjóðar vegna slyssins, en til stóð að þau yrðu við hátíðarhöld í tilefni af sjötugs afmæli Karls Gústafs Svíakonungs. Solberg sagði að um sorgardag væri að ræða, ekki bara fyrir fólk í olíu- og gasbransanum heldur fyrir allt norska samfélagið.

Fréttir mbl.is

Hafa fundið ellefu lík

Þyrla hrapaði í Noregi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert