Þyrla hrapaði í Noregi

Myndir af því þegar þyrlan sprakk í loft upp er …
Myndir af því þegar þyrlan sprakk í loft upp er hún hrapaði eru á forsíðum norsku miðlanna. Skjáskot/Aftenposten

Þyrla hrapaði í Noregi í morgun.  Aftenposten segir að 13 manns hafi verið um borð, 11 farþegar og tveir flugmenn. Slysið átti sér stað í Sotra, skammt vestan við Bergen. Sjónarvottar segja að þyrlan hafi sprungið er hún hrapaði. Björgunarmiðstöðin í Noregi segir að enginn hafi enn fundist á lífi við flakið, segir í frétt NRK.

Þyrlan var á vegum olíufyrirtækisins Statoil.

„Ég heyrði gríðarlegan hvell,“ segir kona sem var í nágrenninu þar sem vélin hrapaði. Sjónarvottar töldu sig í fyrstu hafa séð einhverja á lífi í sjónum en að hefur ekki verið staðfest og björgunarmenn segjast engan hafa fundið á lífi.

„Ég heyrði í þyrlu koma frá Norðursjónum,“ segir Jon Sekkingstad, sjónarvottur, í samtali við NRK. „Það var skrítið hljóð. Um leið og ég leit upp losnaði þyrluspaði og hvarf til vinstri en þyrlan fór til hægri. Hún fór næstum því beint ofan í sjóinn.“ Hann segir að þyrlan hafi sprungið er hún skall á jörðinni. „Þetta var hræðilegt.“

Annar sjónarvottur lýsir atvikinu með sambærilegum hætti. Hann segir að þyrlan hafi hrapað niður á eyju eða hólma og sprungið í loft upp. „Þetta leit mjög illa út,“ segir hann.

Allt tiltækt björgunarlið var kallað út er tilkynning um slysið barst kl. 10.20 að íslenskum tíma. 

Þyrlan er gjörónýt að sögn norsku björgunarmiðstöðvarinnar. Þyrlan var af gerðinni Eurocopter EC-225 Super Puma. Um borð var pláss fyrir nítján farþega og tvo flugmenn.

Fréttin verður uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert