„Ég hef þagað allt mitt líf“

Reinhold Hanning var vörður í Auschwitz útrýmingarbúðunum.
Reinhold Hanning var vörður í Auschwitz útrýmingarbúðunum. AFP

„Ég hef þagað allt mitt líf,“ sagði hinn 94 ára gamli Reinhold Hanning í gær við réttarhöld yfir honum í Þýskalandi en hann er ákærður fyrir aðild að dauða 170 þúsund manns sem fangavörður í útrýmingarbúðum nasista í Auschwitz á árum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Fram kemur í frétt AFP að Hanning hafi til þessa kosið að tjá sig ekki um ákæruefnið en í gær lýsti hann iðrun vegna þátttöku sinni í glæpaverkum nasista. „Mig langar að segja ykkur hversu mjög ég iðrast þess að hafa tekið mark á glæpasamtökum sem bera ábyrgð á dauða fjölda saklauss fólks, eyðileggingu óteljandi fjölskyldna og eymd, angist og þjáningum fórnarlambanna og ættingja þeirra,“ sagði Hanning við réttarhöldin og vísaði þar til þýska Nasistaflokksins.

„Ég skammast mín fyrir að leyfa þessu óréttlæti að viðgangast og ekkert gert til að koma í veg fyrir það. Ég biðst formlega fyrirgefningar á hegðun minni. Ég þykir þetta einlæglega leitt,“ sagði Hanning sem rak mjólkurbúð eftir að stríðinu lauk. Hann er ákærður fyrir að hafa sinnt varðgæslu þar sem teknar voru ákvarðanir um það hvaða fangar gátu sinnt erfiðisvinnu og hverjir væru sendir í opinn dauðann í gasklefana. Hanning er einnig ákærður fyrir að hafa vitað af reglulegum aftökum á föngum sem og að fangar væru kerfisbundið sveltir.

Þegar réttarhöldin hófust í febrúar hvatti eitt af vitnunum, Leon Schwarzbaum sem er níræður að aldri, Hanning til þess að segja sannleikann. „Við erum næstum jafngamlir. Við munum báðir standa frammi fyrir æðsta dómaranum brátt,“ sagði Schwarzbaum og beindi orðum sínum að hinum ákærða.

Leon Schwarzbaum sem lifði af dvölina í Auschwitz útrýmingarbúðunum.
Leon Schwarzbaum sem lifði af dvölina í Auschwitz útrýmingarbúðunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert