Hástéttarmaður eða skandalakóngur?

Hann á afmæli í dag. Karl XVI Gústaf fagnar sjötugsafmæli …
Hann á afmæli í dag. Karl XVI Gústaf fagnar sjötugsafmæli sínu í dag með pompi og prakt. Ljósmynd/Kungahuset.se

Fágaður hástéttarmaður. Skandalakóngur. Maður sem þorir að vera hann sjálfur. Á þennan hátt og ýmsan annan hefur Karli XVI Gústaf Svíakonungi verið lýst af fjölmiðlum bæði í heimalandi sínu og víðar. Skoðanir Svía á konungi sínum eru skiptar en í dag hyggjast margir leggja þær til hliðar og fagna því að í dag verður hann sjötugur.

Hann hefur fengið neikvæðara umtal en flestir kollegar hans í stétt kónga og drottninga og reglulega birtast skoðanakannanir sem sýna að þegnar hans vilja að hann segi af sér. Kóngur stendur þó keikur, segist ekki vera á leið eitt eða neitt, hvað þá á eftirlaun og ef hann verður áfram á valdastólii árið 2018 verður hann þar með sá þjóðhöfðingi Svíþjóðar sem lengst hefur ríkt.

Carl Gustaf Folke Hubertus fæddist 30. apríl 1946, fimmta barn og einkasonur hjónanna Gústafs Adolfs erfðaprins og Sibyllu prinsessu af Sachsen-Coburg-Gotha. Við fæðingu fékk hann titlana erfðafursti Svíþjóðar og hertoginn af Jämtland. Hann naut ekki lengi föður síns, því Gústaf Adolf lést í flugslysi á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn í janúar 1947 og þá fékk hinn ungi Karl Gústaf titilinn erfðaprins.

Þegar Karl Gústaf fæddist var langafi hans, Gústaf V. við völd. Þegar hann féll frá árið 1950 tók afi Karls Gústafs, Gústaf Adolf VI, við völdum og þá varð Karl Gústaf krónprins, fjögurra ára að aldri.

Varð konungur 27 ára

Á vefsíðu sænsku konungsfjölskyldunnar, kungahuset.se, segir að barnæska Karls Gústafs hafi verið sælurík, hann hafi verið mikill náttúruunnandi og tekið virkan þátt í skátastarfi. Eftir að hafa lokið stúdentsprófi gegndi krónprinsinn almennri herþjónustu og gekk síðar til liðs við sjóherinn. Árin 1968-’69 stundaði hann nám í sagnfræði, félagsfræði, stjórnmálafræði og hagfræði við háskólana í Uppsölum og Stokkhólmi, en lauk ekki prófi.

Á áðurnefndri vefsíðu segir að Karl Gústaf hafi verið í sérsniðnu starfsnámi þar sem hann heimsótti ýmsar opinberar stofnanir, fyrirtæki og skóla. Þá hafi hann kynnt sér réttarkerfið, ýmsar félagslegar stofnanir og samtök á vinnumarkaði. Sérstök áhersla hafi verið lögð á uppbyggingu og starfsemi ríkisstjórnarinnar og utanríkisþjónustunnar. Þá tók hann þátt í störfum fastanefndar Svíþjóðar hjá Sameinuðu þjóðunum og var við störf í sænska sendiráðinu í London. Samhliða þessu gegndi hann ýmsum opinberum skyldustörfum.

Gústaf Adolf VI lést árið 1973 og þá varð Karl Gústaf konungur, 27 ára að aldri. Áður hafði hann hitt tilvonandi kvonfang sitt, hina þýsku Silviu Renate Sommerlath. Þau kynntust á ólympíuleikunum í Munchen árið 1972 þar sem hún var túlkur og gengu í hjónaband 1976. Silvía fæddist í Heidelberg í Þýskalandi árið 1943. Móðir hennar var brasilísk og faðir hennar þýskur iðjuhöldur. Í heimildamynd um Silvíu sem kom út 2010 er faðir hennar sagður hafa haft sterk tengsl við nasista. Hún hefur ávallt neitað því og segir að um misskilning sé að ræða.

Konungshjónin eiga þrjú börn: Viktoríu krónprinsessu fædda 1977, Karl Filip prins sem er fæddur 1979 og Magdalenu prinsessu fædda 1982.

Krónprinsessan

Viktoría Ingrid Alice Désirée krónprinsessa og hertogaynja af Vestur-Gotlandi er elst barna Karls Gústafs og Silvíu og mun erfa krúnuna eftir daga föður síns. Þegar það gerist verður hún fjórða konan sem ríkir yfir Svíþjóð og sú fyrsta frá árinu 1720. Hún varð reyndar ekki krónprinsessa fyrr en 1980 þegar hún var tveggja ára, en þá var sænsku erfðalögunum breytt á þann veg að elsta barnið erfir krúnuna, óháð kyni. Faðir hennar var ósáttur við þá lagabreytingu og sagði starfið of erfitt fyrir konu. Viktoría stundaði nám um eins árs skeið í Kaþólska háskólanum í Angers í Frakklandi, hún starfaði í sænska sendiráðinu í Washington í Bandaríkjunum og lauk grunnþjálfun í sænska hernum.

Árið 1997 staðfesti sænska hirðin að Viktoría þjáðist af anorexíu, en vangaveltur þess efnis höfðu verið uppi um hríð. Hún var undir læknishendi næstu árin og ákvað að flytja til Bandaríkjanna þar sem hún starfaði í sænska sendiráðinu og var við nám í Yale háskóla. Hún hefur tjáð sig opinskátt um sjúkdóminn og sagði m.a. í viðtali árið 2002 að henni hefði fundist sem hún hefði enga stjórn á neinu í eigin lífi, öllu væri stjórnað af öðrum.

Það vakti talsverða athygli árið 2010 þegar tilkynnt var um væntanlegt brúðkaup krónprinsessunnar og einkaþjálfara hennar, Daniels Westling sem þá rak nokkrar líkamsræktarstöðvar í Stokkhólmi. Við giftinguna fékk hann titilinn prins og hertoginn af Austur-Gotlandi. Þau eiga börnin Estelle prinsessu og hertogaynju af Austur--Gautlandi , sem fædd er 2012 og Óskar prins og hertoga af Skáni sem er tæplega tveggja mánaða gamall.

Hjónin gegna ýmsum opinberum skyldum og eru verndarar fjölmargra samtaka og stofnana. Viktoría er staðgengill föður síns og hefur komið fram sem slíkur æ oftar.

Einkasonurinn

Karl Filip fæddist sem krónprins, en missti þann titil þegar erfðalögunum var breytt árið 1980 og ber nú titilinn hertogi af Vermalandi. Hann er menntaður hönnuður, auglýsingateiknari og búfræðingur og hefur unnið að nokkrum ljósmyndaverkefnum. Karl Filip gegndi herskyldu og er höfuðsmaður í sænska hernum.

Einkalíf prinsins var títt til umfjöllunar á árum áður og var hann alloft á lista yfir álitlegustu piparsveina heims. Árið 2010 tilkynnti sænska hirðin um að hann væri í sambandi við Sofiu Hellquist, sem helst hafði getið sér frægð í Svíþjóð sem undirfatafyrirsæta og þátttakandi í raunveruleikaþætti, en hafði þegar hér var komið sögu snúið sér að störfum við góðgerðarmál. Þau fóru að búa saman í ríkramannahverfinu Djursgården í Stokkhólmi, þau trúlofuðu sig 2014 og giftu sig þann 13. júní í fyrra. Við giftinguna fékk Sofia titilinn prinsessa og hertogaynja af Vermalandi. Þau eiga soninn Alexander prins sem fæddist 19. apríl síðastliðinn.

Partýprinsessan

Magdalena er listfræðingur, en hefur einnig lagt stund á sálfræði, lögfræði og nám í enskum bókmenntum. Hún hefur m.a. starfað fyrir UNICEF í New York og ýmis góðgerðarsamtök, einkum þau sem snúa að málefnum barna og ungmenna. Árið 2012 var tilkynnt um trúlofun hennar og bandaríska kaupsýslumannsins Christopher O´Neill og síðar sama ár gengu þau í hjónaband. Þau eiga börnin Leonoru prinsessu og Nikulás prins.

Magdalena var áður fyrr talsvert gagnrýnd fyrir óhóflegan lífsstíl og eyðslusemi. Hún var nokkuð virk í alþjóðlegu samkvæmislífi og þótti mörgum Svíanum hún leggja meiri áherslu á hið ljúfa líf en konunglegar skyldur sínar og fékk hún viðurnefnið partýprinsessan. Hún sendi frá sér yfirlýsingu nokkru áður en hún giftist O´Neill þar sem sagði að hún þæði ekkert fé frá sænska ríkinu.

Ýmsar hneykslissögur

Sænska konungsfjölskyldan er af Bernadotte-ættinni, sem hefur verið við völd í landinu frá 1818. Sænski konungurinn hefur engin pólitísk völd, öfugt við t.d. í Danmörku þar sem Margrét Danadrottning skrifar undir lög og veitir stjórnarmyndunarumboð. Undanfarin ár hafa verið háværar raddir í Svíþjóð um að leggja ætti niður konungdæmið og skoðanakannanir hafa sýnt að stór hluti landsmanna er á sama máli. Þá hefur sú skoðun verið nokkuð útbreidd að Karl Gústaf víki fyrir Viktoríu, en hann hefur tekið fálega undir það og sagt að hún eigi að einbeita sér að því að barnauppeldi.

Ein ástæðan fyrir oft á tíðum litlum vinsældum Karl Gústafs er að upp á yfirborðið hafa komið ýmis hneykslismál og sögusagnir um gjálífi og tengsl við vafasamt fólk sem hirðinni hefur reynst erfitt að hrekja. Til dæmis var greint frá því í bókinni Den motvillige monarken, sem kom út árið 2010, að konungurinn væri fastagestur á strippklúbbum og að hann væri konu sinni ótrúr.

Í bókinni sagði líka að Karl Gústaf hefði eytt miklu fé í nektardansmeyjar þegar hann var á Ólympíuleikunum í Atlanta 1996, að hann ætti í ástarsambandi við sænska poppsöngkonu og að hann hefði verið gestur í veislum sem haldnar voru af meðlimum skipulagðra glæpasamtaka.

Konungur hélt blaðamannafund nokkru eftir útgáfu bókarinnar þar sem hann sagði m.a. að ef eitthvað væri rétt í bókinni þá hefði það gerst fyrir mörgum árum síðan. Nokkru síðar veitti hann sænskri fréttastofu viðtal til að útskýra mál sitt, en það var honum lítt til framdráttar því lunginn af viðtalinu fór í útúrsnúninga af hálfu konungsins.

Eftir fjaðrafokið í kjölfar útgáfu bókarinnar lagði konungurinn áherslu á að vera meira meðal almennings, hann fór víða um Svíþjóð og var almennt vel tekið og vinsældir hans jukust.

Sérstök kímnigáfa konungs

Þá hefur konunginum löngum verið legið á hálsi fyrir að sýna fjölmiðlafólki hroka og hótfyndni. Þegar hann var spurður fyrir nokkru hvort Magdalena prinsessa hygðist flytja til Svíþjóðar svaraði hann: „Ætli hún flytji ekki bara til Íslands. Á ekki að vera svo gott að búa þar?“ Við annað tilefni spurði blaðamaður konunginn um heilsfar eiginkonu hans, en hún hafði þurft að hætta við ferðalag vegna veikinda. „Hún er svo veik að það þarf að skera af henni eyrun,“ var svarið. Þá vakti það athygli þegar hann sagði einveldið Brunei vera fyrirmynd annarra ríkja hvað varðar lýðræði, en stjórnarhættir þar þykja allt annað en lýðræðislegir.

Þá vakti það töluverða athygli árið 2011 þegar hann sást klæddur í svartan ruslapoka á afmæli Viktoríu krónprinessu. Sænska hirðin hefur gefið þær skýringar á athæfi hans og hegðun að hann hafi sérstaka kímnigáfu sem fjölskylda hans kunni vel að meta.

Segir fjölmiðla draga dár að sér

Í viðtali sem tekið var við Karl Gústaf árið 2013, þegar hann fagnaði 40 árum á valdastóli, sagðist hann hafa gert mörg mistök í starfi, en Silvía hefði verið honum stoð og stytta og hjálpað honum að finna réttu leiðina. Í nýrri heimildamynd, sem gerð var í tilefni af afmælinu og sýnd í sænska sjónvarpinu í fyrrakvöld, segir hann að honum finnist erfitt að vinna vinnuna sína þegar sífellt sé verið að draga dár að honum í fjölmiðlum. „Maður verður stundum reiður og sorgmæddur fyrir hönd annarra í fjölskyldunni,“ segir konungurinn í myndinni.

Ekki á leið á eftirlaun

Í viðtali við Karl Gústaf í sænska dagblaðinu Dagens Nyheter fyrir skömmu sagðist hann trúa á framtíð konungsveldsins. „Það stendur fyrir þann stöðugleika sem knýr þjóðina áfram til framfara,“ sagði hann í viðtalinu. Og hann segist alls ekki vera á leið á eftirlaun. „Maður vinnur eins lengi og maður hefur heilsu og getu til. Við Bernadottarnir segjum gjarnan að við séum barnslegir í lund. Þannig verðum við aldrei gömul.“

Mikið um dýrðir í Svíaríki

Undanfarna daga hafa verið hátíðahöld og móttökur víða um Svíþjóð vegna afmælisins og í dag verður þar mikið um dýrðir. T.d. munu konungshjónin aka í opnum hestvagni um borgina í ráðhúsið til afmælishátíðar og í kvöld býður konungur til hátíðakvöldverðar. Meðal boðsgesta eru forsetahjónin íslensku sem einnig munu snæða hádegisverð á morgun með konungi og fjölskyldu hans í konungshöllinni.

Karl Gústaf missti föður sinn ungur og varð konungur að …
Karl Gústaf missti föður sinn ungur og varð konungur að afa sínum gengnum. Ljósmynd/Kungahuset,se
Sænska konungsfjölskyldan árið 1984.
Sænska konungsfjölskyldan árið 1984. Ljósmynd/Kungahuset.se
Fjölskyldan samankomin í júlí 2014. Síðan þá hafa bæst við …
Fjölskyldan samankomin í júlí 2014. Síðan þá hafa bæst við þrjú barnabörn. Ljósmynd/Kungahuset.se
Sænsku konungshjónin, Silvía drottning og Karl XVI Gústaf.
Sænsku konungshjónin, Silvía drottning og Karl XVI Gústaf. Ljósmynd/Kungahuset,se
Viktoría krónprinsessa Svía með Óskar son sinn nýfæddan.
Viktoría krónprinsessa Svía með Óskar son sinn nýfæddan. Ljósmynd/Kungahuset.se
Erfðaröðin. Karl XVI Gústaf heldur á Estelle dótturdóttur sinni og …
Erfðaröðin. Karl XVI Gústaf heldur á Estelle dótturdóttur sinni og Viktoría móðir hennar stendur hjá. Viktoría verður drottning eftir daga föður síns og Estelle mun taka við af henni. Ljósmynd/Kungahuset,se
Hjónin Viktoría og Daniel.
Hjónin Viktoría og Daniel. Ljósmynd/Kungahuset.se
Hertogahjónin af Vermalandi; Sofia og Karl Filip með soninn Alexander …
Hertogahjónin af Vermalandi; Sofia og Karl Filip með soninn Alexander nýfæddan. Ljósmynd/Kungahuset,se
Hjónin Magdalena prinsessa og Christopher O´Neill með Leonoru prinsessu og …
Hjónin Magdalena prinsessa og Christopher O´Neill með Leonoru prinsessu og Nikulás prins. Ljósmynd/Kungahuset.se
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert