Ljúka við að bera kennsl á líkin

Frá slysstað á föstudag.
Frá slysstað á föstudag. AFP

Norska lögreglan „telur og vonar“ að hún hafi fundið lík allra þeirra sem létu lífið þegar þyrla hrapaði við Turey í Hordalandi á föstudag.

Hinir látnu eru tólf menn og ein kona, þar af 11 Norðmenn, einn Breti og einn Ítali.

18 manna hópur á vegum norska ríkislögreglustjórans hefur unnið að því að bera kennsl á líkin hingað til en alls telur hópurinn 30 manns og er tannlæknir þeirra á meðal. Í gær bárust þau skilaboð frá hópnum að sú vinna gæti tekið allt upp í fimm daga en í dag segir talsmaður hópsins, Per Angel, að vonast sé til að búið verði að bera kennsl á alla í kvöld eða um eftirmiðdaginn. Hann segir þó ekki öruggt að það sem fundist hafi sé nóg til að bera kennsl á alla.

„Þetta er púsluspil og það er tímafrekt,“ sagði Angel.

Lögregla var með næturvakt á slysstað í nótt en framkvæmdi enga frekari leit. Í dag verður leitað í minni hólmum og á ströndinni meðfram slysstaðnum. Samkvæmt NRK vill lögregla fullvissa sig um að engir líkamspartar eða munir úr þyrlunni liggi þar sem vegfarendur gætu komið að þeim fyrir tilviljun.

Aðstandendur voru fluttir að slysstað í morgun, fyrst með rútu og svo með bát sem sigldi að hólmanum þar sem þyrlan hrapaði. Hópurinn fór ekki í lad en kastaði rósum í hafið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert