Tekist hefur að ná gögnum úr svarta kassanum úr þyrlunni sem hrapaði við Turey í Hörðalandi í Noregi á föstudaginn. Samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins, NRK, verður nú hafist handa við að greina gögnin til að fá nánari mynd af því hvað olli slysinu. Enn er unnið að því að bera kennsl á þá þrettán einstaklinga, 12 karla og eina konu, sem létust í slysinu. Þyrlan var á vegum Statoil, norska ríkisolíufélagsins og samkvæmt sjónarvottum losnuðu spaðar hennar af henni áður en hún hrapaði til jarðar.
Flugvéla- og þyrluframleiðandinn Airbus sem framleiðir þyrlutegundina, H225 Super Puma, segir það aldrei áður hafa gerst að spaði hafi losnað af þaki þyrlu þessarar gerðar. „Við erum í áfalli“, segir talsmaður Airbus í samtali við norska dagblaðið Bergens Tidende. „Það verður forgangsmál hjá okkur að finna ástæðuna fyrir slysinu.“
Hópur viðgerðar- og tæknimanna á vegum Airbus er nú á vettvangi og kannar aðstæður. NRK greinir frá því að áður hafi þyrla af Puma-gerð hrapað eftir að spaðar hennar losnuðu, en Airbus neitar að um sambærilegt tilvik sé að ræða. Það gerðist árið 2009 og í frétt NRK segir að þetta fyrra óhapp hafi átt sér stað við Bretlandseyjar. Sú þyrla hafi verið af gerðinni Super Puma 332 L2 og þessar tvær tegundir hafi nánast eins gírkassa.