Ekkert neyðarkall barst frá þyrlunni sem hrapaði við Turey í Hörðalandi í Noregi á föstudaginn. Þá bárust ekki skilaboð sem bentu til þess að eitthvað virkaði ekki sem skildi.
Flugmenn þyrlunnar sendu reglubundin skilaboð til flugumferðarstjóra í flugturninum þegar þeir nálguðust land. Sögðust þeir vera að undirbúa lendingu en aðeins fáum mínútum síðar brotlenti þyrlan. Enginn lifði slysið af.
Engin skilaboð bárust frá flugmönnunum síðustu sekúndurnar áður en þyrlan brotlenti. Ekki er vitað hvort þyrlan sendi frá sér sjálfvirkt neyðarkall.
Í gær bárust fregnir af því að tekist hefði að ná gögnum úr flugrita þyrlunnar. Enn er unnið að því að bera kennsl á þrettán einstaklinga sem létust í slysinu. Þyrlan var á vegum Statoil, norska ríkisolíufélagsins og samkvæmt sjónarvottum losnuðu spaðar hennar af henni áður en hún hrapaði til jarðar.
Flugvéla- og þyrluframleiðandinn Airbus sem framleiðir þyrlutegundina, H225 Super Puma, segir það aldrei áður hafa gerst að spaði hafi losnað af þaki þyrlu þessarar gerðar. „Við erum í áfalli“, segir talsmaður Airbus í samtali við norska dagblaðið Bergens Tidende. „Það verður forgangsmál hjá okkur að finna ástæðuna fyrir slysinu.“