Ríkissaksóknari Brasilíu hefur fram á það við Hæstarétt landsins að hafin verði rannsókn á því hvort að Dilma Rousseff, forseti, hafi hindrað framgang réttvísinnar þegar hún reyndi að skipa Lula de Silva, forvera hennar, í ráðherraembætti. Símhleranir eru sagðar sýna að tilgangurinn hafi verið að veita honum friðhelgi.
Rousseff er í kröppum dansi þessa dagana en hún á yfir höfðu sér ákæru vegna spillingar og misnotkunar á opinberum sjóðum. Líklegt er talið að hún verði sett af á næstunni. Nú greina brasilískir fjölmiðlar hins vegar frá því að önnur ákæra vofi yfir henni, nú fyrir að reyna að hindra framgang réttvísinnar. Rannsóknin er einnig sögð beinast að Luiz Ignacio Lula da Silva, samflokksmanni forsetans og forvera hans í embætti.
Lula er einnig til rannsóknar ásamt þremur öðrum ráðherrum vegna meintrar spillingar í tengslum við ríkisolíufyrirtækið Petrobras. Rousseff er sögð hafa lagt á ráðin með Lula um að stöðva rannsókn dómara á spillingunni.
Málið snýst um að Rousseff reyndi að skipa Lula sem ráðherra í ríkisstjórn sinni. Þar með hefði honum verið veitt takmörkuð friðhelgi fyrir ákærum. Rousseff sagði þá að hún vildi að hann leiddi vörn sína gegn tillögu um ákæru gegn henni í þinginu.
Saksóknarar hleruðu símtöl Rousseff og Lula. Þeir segja að tilgangurinn hafi verið sá að afla Lula friðhelgi. Hæstiréttur er nú að meta hvort að hann fái að taka við ráðherraembætti.