Fyrstu réttarhöldin vegna kynferðisofbeldisbrota sem framin voru á lestarstöðinni í Köln í Þýskalandi á nýársnótt eru hafin. Nú er réttað yfir 26 ára alsírskum manni sem var ákærður fyrir tilraun til nauðgunar og þjófnað.
Maðurinn er sakaður um að hafa verið í hópi tíu manna sem umkringdu og káfuðu á konu á lestarstöðinni.
Ofbeldið á nýársnótt vakti hörð viðbrögð um alla Evrópu. Yfir þúsund kærur voru lagðar fram, hundruð af þeim voru vegna kynferðisofbeldis. Konur sögðust margar hafa verið umkringdar af hópi karlmanna og þær áreittar.
Alsíringurinn sem nú er réttað yfir neitar sök, að því er fram kemur í frétt BBC. Saksóknarar segja að mennirnir sem hann var í slagtogi með, hafi umkringt konuna, snert hana, m.a. rasskinnar hennar, í 2-3 mínútur.
Á meðan notaði Alsíringurinn tækifærið og stal farsíma hennar.
Bróðir hans, 23 ára, er einnig fyrir rétti í dag. Hann er sakaður um að hafa stolið farsíma af annarri konu á meðan hún var umkringd.
Níu karlmenn hafa þegar verið sakfelldir fyrir þjófnaði þetta kvöld í Köln.