Samþykktu umdeildar aðgerðir

Umræður um aðgerðirnar stóðu yfir í tvo daga en þeim …
Umræður um aðgerðirnar stóðu yfir í tvo daga en þeim hefur verið harðlega mótmælt. AFP

Gríska þingið hefur samþykkt umdeildar endurbætur sem snúa að skattkerfinu og lögum um lífeyrissjóði. Samþykkt aðgerðanna er forsenda þess að ríkið fái greitt úr björgunarpotti sem settur var á laggirnar til að bjarga því frá gjaldþroti.

Áður en atkvæðagreiðsla um breytingarnar fór fram, köstuð mótmælendur eldsneytissprengjum að lögreglu, sem svaraði með táragasi.

Á mánudag munu fjármálaráðherrar evruríkjanna funda í Brussel til að leita leiða til að koma í veg fyrir nýja krísu á svæðinu.

Umræður á þinginu stóðu yfir í tvo daga en á meðan mótmæltu þúsundir í Aþenu og Thessaloniku, flestir friðsamlega. Efnt var til þriggja daga allsherjarverkfalls, sem lamaði almenningssamgöngur og hægði á þjónustu hins opinbera og fjölmiðla.

Forsætisráðherranum Alexis Tsipras tókst þó að tryggja samþykkt aðgerðanna, sem fela m.a. í sér að ákveðnar lífeyrisgreiðslur lækka, að lífeyrissjóðir verða sameinaðir og að skattar verða hækkaðir á þá sem eru með miðlungs og háar tekjur.

Á fundi ráðherrana munu þeir m.a. leggja mat á þær aðgerðir sem stjórnvöld í Grikklandi hafa gripið til til að koma böndum á skuldabagga ríkisins.

BBC sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert